„Hver ritstýrir eiginlega þessum vefmiðli sem gengur undir nafninu mbl.is?“
Svona hefst færsla Brynjar Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, en hann gagnrýnir grein sem birtist á miðlinum í dag. Greinin sem Brynjar gagnrýnir ber heitið „Segir söluna minna á upphaf hrunsins“ og er titill greinarinnar fenginn frá Þorvaldi Gylfasyni, hagfræðiprófessor.
Salan sem vitnað er í er sala ríkisins á 35% hlut í Íslandsbanka. Þar var hver hlutur í bankanum seldur á 79 krónur en strax daginn eftir að hlutafjárútboðinu lauk var hluturinn orðin 99 króna virði. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur verið gagnrýndur fyrir að selja hlutina á undirverði.
„Þessi ágæti maður trúir því að sala ónýtra ríkisbanka um síðustu aldamót, sem kostuðu skattgreiðendur stórfé alla tíð, hafi valdið bankakreppu í öllum heiminum og að sala nú á litlum hlut ríkisins í banka sem við fengum óvænt og óumbeðið upp í hendurnar valdi annarri bankakreppu,“ segir Brynjar í færslunni.
Hann segir að það sé einsdæmi að íslenska ríkið skuli láta skattgreiðendur sitja uppi með alla áhættu af fjármálastafsemi í landinu og því sé ekkert athugavert við sölu ríkisins á bankanum.
„Og það er örugglega hvergi annars staðar í heiminum sem stærsti vefmiðilinn er án ritstjórnar,“ segir Brynjar ennfremur.
Á vef mbl.is kemur fram að fréttastjóri vefmiðilsins sé Jón Pétur Jónsson og netstjóri mbl.is sé Árni Matthíasson. Ritstjórar Morgunblaðsins eru þeir Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen.