Það var nóg að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Samkomutakmarkanir voru auðvitað felldar niður á föstudaginn og því voru margir djammþyrstir Íslendingar sem ákváðu að skemmta sér almennilega um helgina.
Um klukkan hálf tíu í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás í 104 Reykjavík. Rúmum klukkutíma síðar var tilkynnt um innbrot í 108 Reykjavík og klukkutíma eftir það var tilkynnt um þjófnað í 108 og innbrot í bifreiðar í 104.
Þegar leið á nóttina fór skemmtanalífið að gera vart við sig í dagbók lögreglu. Óskað var til að mynda eftir aðstoð lögreglunnar á skemmtistað í miðbænum vegna einstaklings sem var ofurölvi og veittist að gestum og gangandi. Einstaklingurinn sem um ræðir var handtekinn og verður vistaður í fangaklefa þar til rennur af honum og hægt verður að ræða við hann.
Klukkan rétt rúmlega þrjú í nótt var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna líkamsárásar í miðbænum og 20 mínutum síðar var lögreglan kölluð til á annan stað í miðbænum vegna slagsmála. Einn einstaklingur var handtekinn vegna málsins og var vistaður í fangaklefa.
Þegar kvöldið fór að líða undir lok var einn einstaklingur handtekinn í miðbænum fyrir að hafa skemmt lögreglubifreið. Einstaklingurinn henti víst glasi í bifreiðina og við það komu skemmdir. Einstaklingurinn var ofurölvi og var hann því vistaður í fangaklefa þar til hægt verður að ræða við hann um það sem gerðist.
Eitthvað var um einstaklinga sem keyrðu undir áhrifum í gær en lögreglan stöðvaði alls 7 bifreiðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.