Gísla Matthíasi Gíslasyni blöskraði á fimmtudaginn þegar hann sá að bensínlítrinn hjá Orkunni í Suðurfelli í Breiðholtinu kostaði 249,5 krónur. Gísli, sem er íbúi í Breiðholti vakti athygli á bensínverðinu í Facebook-hópi íbúa í Breiðholti og Hringbraut vakti athygli á málinu í dag.
Þegar Gísli sá hvað bensínlítrinn kostaði í Suðurfelli ákvað hann að keyra á aðra bensínstöð Orkunnar á Dalvegi. Þar var bensínið mun ódýrarara, lítrinn kostaði 211,3 krónur sem er 38,2 krónum ódýrara en í stöðinni í Suðurfelli. Þótt 38,2 krónur sé ekki mikill peningur þá bendir Gísli á að þegar þetta safnast saman verður upphæðin nokkuð há. Hann segir til að mynda að hann hafi sparað tæpar tvö þúsund krónur með því að taka bensín á Dalvegi frekar en í Suðurfelli.
„Eigum ekki að láta bjóða okkur svona, þó við búum í Breiðholtinu,“ segir Gísli í færslunni sem hann birti í Facebook-hópnum og tekur svo skýrt fram að hann eigi engra hagsmuna að gæta hjá neinu olíufélagi. Eftir að Gísli birti færsluna hafa myndast miklar umræður um bensínverðið í hópnum og eru margir íbúar ekki sáttir með verðmuninn.
Bensínverð á Íslandi hefur farið nokkuð hækkandi að undanförnu en hægt er að fylgjast með bensínverði á öllum bensínstöðvum landsins á vefsíðunni bensinverd.is. Þar má sjá að lítrinn kostar 249,5 krónur á flestum bensínstöðvum Orkunnar. Á Dalvegi, Bústaðavegi og Reykjavíkurvegi er bensínlítri frá Orkunni þó mun ódýrari en hann kostar 211,3 krónur á öllum þessum stöðvum.