Risastórir erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um íslensku sóttvarnarafléttingarnar sem voru tilkynntar í dag. Líkt og flestir vita munu allar takmarkanir vegna heimsfaraldursins falla úr gildi hér á landi á miðnætti, en ríkisstjórnin greindi frá því á blaðamannafundi í morgun.
Nýtt líf hefst á Íslandi á morgun – Allar samkomutakmarkanir falla niður – Sjáðu hvað breytist
Fá lönd eru með jafn litlar takmarkanir vegna veirunnar þessa stundina, en erlendu miðlarnir gera mikið úr því að Ísland sé fyrsta landið í Evrópu sem losi sig við allar takmarkanir.
Á meðal miðla sem fjalla hafa um málið eru Reuters og Daily Mail. Þar er fjallað mikið um árangur Íslands í baráttu við veiruna og hversu stór hluti þjóðarinnar hefur verið bólusettur.
Í grein Reuters er fullyrt að Íslandi hafi á flestum sviðum tekist vel að berjast við faraldurinn, vegna mikilla skimana og öflugs rakningateymis.
Báðir miðlar benda á að 87% landsmanna hafi fengið allavega einn skammt af bóluefni. Og að einungis megi rekja 30 andlát til veirunnar.
Þá minnir Daily Mail á að ekki hafi greinst smit hér á landi frá 15. júní síðastliðnum, en liðnir eru tíu dagar frá þeirri dagsettningu.
Lesa má umfjöllun Reuters hér, og umfjöllun Daily Mail hér.