Ástin spyr ekki um aldur og það er sérstaklega satt í lífi Cassöndru Kremer og unnusta hennar Johnny Warpinski en Cassandra er 26 ára gömul á meðan Johnny er 69 ára. Þau eru nú á fullu að skipuleggja brúðkaup sitt og vilja gjarnan fjölga sér sér líka.
Þau sáu hvort annað fyrst á kaffihúsi fyrir sjö árum síðan en Johnny óttaðist að hann væri alltof gamall fyrir þennan unga þjón sem þá var 19 ára. Cassandra varð hins vegar ástfangin strax. Johnny forðaðist kaffihúsið næstu tvo mánuðina og reyndi að leiða tilfinningar sínar hjá sér. Allt þar til miðill sagði honum að hann yrði að snúa aftur á kaffihúsið.
Þá var ekki aftur snúið og hefur ekki slefið slitnað á milli þeirra síðan. Fjölskyldur þeirra hafa tekið sambandinu vel þrátt fyrir að Johnny sé eldri en tengdaforeldrar hans og Cassandra yngri en stjúpbörnin.
Hæ ég held ég elski þig
„Johnny kom inn á kaffihúsið og söng við mikla hrifningu viðstaddra. Hann er með dásamlega rödd – í hreinskilni varð ég ástfangin á staðnum. Ég sagði öllum samstarfsfélögum mínum að hann væri kærastinn minn og þegar hann var að fara náði ég honum í hurðinni og sagði : Hæ, ég held ég elski þig. Hann svaraði því með „Takk“. Johnny kom svo ekki aftur í kaffihúsið fyrr en tveimur mánuðum síðar og mig bókstaflega dreymdi um hann á hverri einustu nóttu og ég hugsaði stanslaust um hann.
En einn daginn fór hann að hitta sjúkraþjálfara og vin hennar sem er miðill. Þau fóru með hann í hádegismat og hún starði beint í augun á honum og sagði að hann yrði að fara á þetta kaffihús. Hann spurði hvers vegna en þau neituðu að segja honum það. Síðan eitt kvöldið kom hann aftur og við hittumst og þá var ekki aftur snúið.“
Cassandra segir að henni þyki vænt um að miðill hafi verið örlagavaldur í lífi þeirra, að það hafi verið alheimurinn sem vildi þau saman.
„Aldursmunurinn er 42 ár en hann hagar sér eins og unglingur flesta daga, og ég meina það á góðan hátt en ekki slæman.“
Elshugi minn en ekki dóttir mín
Þrátt fyrir að yfirnáttúrlegir kraftar hafi leitt þau saman máttu þau þola nokkra gagnrýni vegna aldursmunarins. Börn Johnnys voru nokkuð tortryggin til að byrja með en hafa nú tekið nýju stjúpmóður sinni með opnum örmum. Til að koma í veg fyrir augngotur og slúður segir Johnny að hann tilkynni oft að fyrrabragði að „hún er elskhugi minn en ekki dóttir mín.“
Hann bætir þó við í gríni: „Ég ætti kannski frekar að segja „Við erum feðgin og ég elska hana til dauða“ og svo kyssa hana beint á varirnar“
Cassandra segir álit ókunnugra ekki skipta hana neinu. „Það truflar mig ekkert þegar fólk verður ringlað. Ég segi bara: „Nei hann er ekki pabbi minn“ og við segjum það oft strax til að byrja með því fólk er forvitið. Það er alveg skiljanlegt að ókunnugir haldi að við séum feðgin og það móðgar mig ekkert.“
Takk fyrir að hafa áhyggjur af mér
Þau rifja þó upp eitt atvik þar sem manneskja var allt annað en sátt við samband þeirra. Þau voru úti að skemmta sér þegar Cassandra sá konu senda henni illt auga. Hún gekk upp að henni og spurði hvað væri eiginlega að henni. Konan svaraði: „Hann er of gamall og þú of ung og falleg til að vera með henni“
Cassandra lét þetta þó ekki slá sig út af laginu og svaraði: „Takk fyrir að hafa áhyggjur af mér en ég er fullorðin kona og get tekið mínar eigin ákvarðanir. Ég þarf enga hjálp frá þér alveg sama hvað þér finnst.“
Þrátt fyrir kynslóðabilið eiga þau Cassandra og Johnny mikið sameiginlegt.
„Við elskum náttúruna, að fara í göngutúra þrisvar á dag, fjallgöngur, að eyða tíma með fjölskyldunni, mat og að hlusta á tónlist. Það er svo mikið sem við eigum sameiginlegt, ég held ég hafi aldrei átt svona mikið sameiginlegt með neinum.“
Ekki nóg með það heldur starfar parið einnig saman við tónlistarmeðferð fyrir eldri borgara. Johnny segir það henta þeim vel þar sem eldra fólkið sé oft umburðarlyndara en yngra fólkið. „Yngra fólkið og konur yngri en 40 ára eru oft dómhörð en eldri borgararnir eru það ekki – þau elska okkur. Þau spyrja okkur hvort við séum gift og tala oft um hana sem eiginkonu mína sem ég kann að meta.“
Ekki að fara að geispa golunni
Nú eru þau trúlofuð og stefna á að gifta sig árið 2023. Cassöndru langar að eignast börn og Johnny er að hugsa málið, enda stórt skref fyrir hann að hefja barneignir að nýju þegar eldri börn hans eru bæði komin á fertugsaldur. Þau gera sér einnig grein fyrir því að sennilega verður Cassandra ekkja á einhverjum tímapunkt.
„Ég held ég sé ekki að fara að geispa golunni næstu tíu árinn og ég reyni að lifa heilbrigðu lífi og hreyfa mig – en enginn veit hvað morgundagurinn hefur í för með sér.“
Cassandra óskar þess að fólk væri opnara fyrir hugmyndinni um eldri maka.
„Það er svo gott tækifæri til að þroskast og læra nýja hluti og til að upplifa önnur sjónarmið og lífsstíl. Mér finnst það góður hlutur.“