Meghan Scotcher, 27 ára móðir, frá Derbyshire á Englandi, greindi frá því fyrir ári síðan á Facebook-síðu sinni að hún væri með alvarlegt krabbamein í lungum. Hún sagðist bara eiga nokkra mánuði eftir ólifaða. Konan stofnaði hópfjármögnunarsíðu til að safna pening fyrir baráttunni gegn krabbameininu og fékk þannig um 3,8 milljónir í íslenskum krónum.
Síðar kom sannleikurinn í ljós, Meghan var ekki með neitt krabbamein. Það var að vísu eitthvað sannleikskorn í þessu hjá henni því hún hafði vissulega fengið krabbamein áður en hún hafði sigrað í þeim baráttum. Hún viðurkenndi fyrir dómi í gær að hún hafði logið um lífshættulega krabbameinið til að græða pening á fólki sem vildi hjálpa henni.
„Það verður að sjá til þess að hún læri af þessu“
Danielle, tveggja barna móðir, er ein þeirra sem gaf Meghan pening á sínum tíma en hún er allt annað en sátt í dag. Henni finnst að Meghan eigi að fara á bakvið lás og slá svo hún læri sína lexíu. „Þetta var hræðilegt af henni og mér finnst að það eigi að láta hana borga fólkinu sem hjálpaði henni hvern einasta aur til baka,“ segir Danielle í samtali við The Sun.
„Eftir því sem ég best veit hefur hópfjármögnunarsíðan endurgreitt öllum en málið snýst ekki um það – hún ætti að borga þeim til baka, ekki síðan. Við þekkum öll fólk sem hefur fengið krabbamein og það að hún hafi logið þessu er ógeðslegt. Ég held að hún fái ekki refsinguna sem hún á skilið en hún á að vera dæmd í fangelsi. Það verður að sjá til þess að hún læri af þessu.“
Faðir fyrrum kærasta Meghan er einnig ósáttur. Sonur hans hafði sett upp hópfjármögnunarsíðuna að hennar beiðni á sínum tíma en hann vissi ekki að um lygi væri að ræða. „Þau höfðu hætt saman löngu áður en þetta kom upp en hann vildi samt hjálpa henni. Við vorum öll steinhissa þegar við komumst að því að þetta var helber lygi.“