Undanfarinn sólarhring hefur orðrómur um hrottalega hópnauðgun úti á Gróttu mikið verið ræddur af fólki hér á landi. Um er að ræða upptöku af konu sem að fer yfir hina meintu atburðarrás og er á þá leið að sex rúmenskir karlmenn í tveimur bílum hafi numið á brott unga menntaskólastúlku í miðbænum, keyrt með hana út á Gróttu þar sem þeir hafi allir nauðgað henni. Fórnarlambið hafi svo við illan leik náð að kasta sér út úr bílnum.
DV hefur borist ábendingar um málið úr fjölmörgum áttum síðastliðinn sólarhring ásamt ásökunum um að verið sé að þagga málið niður. Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðsbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við DV að lögreglan kannist ekki við að slíkt mál sé inni á borði lögreglu.
Mikið hefur verið rætt um málið á samfélagsmiðlinum Twitter. Heiðar Austmann, útvarpsmaður á K100, talaði um málið og vakti mikla athygli fyrir ummæli sín. Heiðar birti fyrr í dag færslu á samfélagsmiðlinum sem var harðlega gagnrýnd af öðrum netverjum en hann eyddi færslunni stuttu síðar.
„Djöfull var ég reiður þegar ég heyrði þessi talskilaboð. Finnst ég heyra of oft „Rúmenar“ nú orðið í tengslum við glæpi hérlendis. Af hverju eru þessi ógeð ekki send úr landi. Schengen EES eða hvað þetta heitir, það er ekki boðlegt að þurfa að díla við svona erlent hyski,“ sagði Heiðar í færslunni sem hann eyddi.
„Ég læt ekki stimpla mig sem rasista“
Heiðar hefur nú birt færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann útskýrir mál sitt. Þegar DV óskaði eftir ummælum frá Heiðari vegna málsins benti hann blaðamanni á færsluna. Í færslunni útskýrir Heiðar hvað hann átti við en hann segist ekki vera rasisti þrátt fyrir að einhverjir hafi reynt að stimpla hann sem slíkan.
„Ekkert er fjarri sannleikanum. Ég fordæmdi ofbeldisverkið og þessa tilteknu Rúmena sem eru í þessum ofbeldisglæpum og öðrum hérlendis. Þýðir það að allir Rúmenar hérlendis séu slæmir? Alveg alls ekki. Er ég rasisti? Nei guð ég er það ekki,“ segir Heiðar til að mynda í færsluna en hana má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.
„Seint ætlar maður að læra. Eftir að hafa hlustað á hljóðskilaboð í gær frá konu sem lýsti því að vinkona hennar hafi orðið fyrir hrottalegu ofbeldi á Gróttu af hendi Rúmena sem víst „stunda“ svona athæfi og hafa að minnsta kosti 3 konur lent í þeim sá ég færslu frá konu á Twitter í gær sem fordæmdi svona ofbeldishegðun. Ég tók undir þau orð og spurði af hverju þessum mönnum er ekki vísað úr landi fyrir svona hegðun. Kallaði þá meðal annars „erlent hyski“. Ég meina fjórir karlmenn sem draga konu inn í bíl og nauðga henni, hvað eru þeir annað en HYSKI og jafnvel ógeð?
Nú eru margar Twitter hetjurnar að reyna stimpla mig sem rasista og að ég sé að stimpla alla Rúmena út frá því sem ég sagði. Ekkert er fjarri sannleikanum. Ég fordæmdi ofbeldisverkið og þessa tilteknu Rúmena sem eru í þessum ofbeldisglæpum og öðrum hérlendis. Þýðir það að allir Rúmenar hérlendis séu slæmir? Alveg alls ekki. Er ég rasisti? Nei guð ég er það ekki. Í þessu tilfellum hafa Rúmenar poppað upp og ég fordæmi ÞÁ AÐILA fyrir ÞEIRRA ofbeldisverk en ekki alla Rúmena !!!
Hefði ég getað sleppt því að skrifa „erlent hyski“? Já vissulega var það illa orðað en hvað er svona rangt við það sem ég skrifaði? Var keimur af rasisma í færslunni, kannski já en ekki meðvitaður og alls ekki ætlaður. Er bara orðinn þreyttur á að heyra um síbrotamenn sem eru Rúmenar og að þeir fái að brjóta af sér trekk í trekk.
Sorry en ég læt ekki stimpla mig sem rasista fyrir að fordæma aðgerðir ákveðinna aðila burtséð frá þjóðerni og/eða húðlit.“