Undanfarinn sólarhring hefur orðrómur um hrottalega hópnauðgun úti á Gróttu farið á flug á samfélagsmiðlum. Um er að ræða upptöku af konu sem að fer yfir hina meintu atburðarrás og er á þá leið að sex rúmenskir karlmenn í tveimur bílum hafi numið á brott unga menntaskólastúlku í miðbænum, keyrt með hana út á Gróttu þar sem þeir hafi allir nauðgað henni. Fórnarlambið hafi svo við illan leik náð að kasta sér út úr bílnum.
DV hefur borist ábendingar um málið úr fjölmörgum áttum síðastliðinn sólarhring ásamt ásökunum um að verið sé að þagga málið niður. Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðsbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við DV að lögreglan kannist ekki við að slíkt mál sé inni á borði lögreglu.
Mikið hefur verið rætt um málið á samfélagsmiðlinum Twitter. Einn þeirra sem hefur rætt um málið er Heiðar Austmann, útvarpsmaður á K100. Heiðar birti fyrr í dag færslu á samfélagsmiðlinum sem var harðlega gagnrýnt af öðrum netverjum.
„Djöfull var ég reiður þegar ég heyrði þessi talskilaboð. Finnst ég heyra of oft „Rúmenar“ nú orðið í tengslum við glæpi hérlendis. Af hverju eru þessi ógeð ekki send úr landi. Schengen EES eða hvað þetta heitir, það er ekki boðlegt að þurfa að díla við svona erlent hyski,“ sagði Heiðar í færslunni en hann hefur nú eytt henni.
„Þetta er ekki afsökun fyrir fordómum sko“
Orð Heiðars hafa vakið upp mikla umræðu um rasisma og orðræðu í svona málum. „Rúmenar eru ekki hyski frekar enn nein önnur þjóð eða þjóðflokkur. Rasismi er krabbamein!“ segir til að mynda einn netverji um færsluna sem Heiðar eyddi.
Heiðar kemur þá sjálfum sér til varnar og segist hafa verið að meina þessa aðila sem um er að ræða en ekki þjóðina í heild sinni. „Þessir aðilar !!!!! Enginn að ræða heila þjóð. Þetta er víst 3ja ofbeldisverk þessara aðila á stuttum tíma og því spyr ég af hverju fá ÞEIR (ekki allir Rúmenar) að fá að vera á landinu. En snúðu út úr…“ segir Heiðar.
Sami netverjinn bendir honum þá á að með því að endurtaka að hann heyri oft um „Rúmena“ sem fremja glæpi sé hann að viðhalda ákveðinni orðræðu. „Ekkert mál. Skal vanda mig betur í orðavali. Fyrir mér eru samt aðilar sem fremja svona ógeðisglæpi hyski. Menn sem þurfa að draga konur inní bíla til að nauðga þeim eru aumingjar og hyski burtséð frá þjóðerni,“ segir Heiðar þá.
Í öðrum þræði undir færslunni sem Heiðar eyddi má sjá hann og netverja takast á um málið. „Spurning að vera ekki rasisti samt? Fullt af Íslendingum beita kynferðisofbeldi, kannski jafnvel bara meirihluti gerenda á Íslandi eru íslenskir, hvert viltu reka þá? Þetta er ekki afsökun fyrir fordómum sko,“ segir sá netverji og við taka nokkuð margar færslur þar sem netverjinn og Heiðar skjóta á hvort annað.
Ekki hefur náðst í Heiðar við gerð fréttarinnar en hún verður uppfærð ef svör berast frá honum um efnið.