fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Eyjan

Ólga hjá fjölmiðlum í Hafnarfirði og bæjarfulltrúi blandar sér í málið – „Ekki nota Olgu og hennar lífsviðurværi sem svipu!“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 26. febrúar 2021 13:40

F.v. Guðni Gíslason, Olga Björt Þórðardóttir og Friðþjófur Helgi Karlsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarfrétta, fer hörðum orðum um þá ráðstöfun á styrktarfé að útgefandi miðilsins Hafnfirðingur hafi hlotið styrk úr byggðaáætlun Menntamálaráðuneytisins upp á 455 þúsund krónur. Styrkirnir eru ætlaðir fjömiðlum utan höfuðborgarsvæðisins. Guðni fer yfir málið í grein í Fjarðarfréttum. Styrkirnir voru auglýstir til umsóknar síðasta sumar en úthlutunin var í október.

Í frétt ráðuneytisins um styrkina frá 9. október segir:

„Mennta- og menningarmálaráðherra ákvað hinn 1. september sl. að veita staðbundnum fjölmiðlum utan höfuðborgarsvæðisins styrk úr byggðaáætlun. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að veita árlega 5 milljónum kr. til að efla staðbundna fjölmiðla, samtals 25 milljónum kr. á fimm árum.

„Staðbundnir fjölmiðlar tryggja aðgengi almennings að upplýsingum um samfélagsmál í sínu nærumhverfi og styðja þannig við lýðræðisþátttöku og menningarstarf með mikilvægum hætti,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Auglýst var eftir styrkjum í júlí og bárust alls 11 umsóknir. Allir umsækjendur eru skráðir fjölmiðlar hjá fjölmiðlanefnd og hafa þeir staðið að reglubundinni útgáfu á þessu ári og umfjöllunarefni og fréttir eru að jafnaði frá afmörkuðu landsvæði. Allar umsóknir voru því teknar til greina.“

Í umfjöllun Guðna kemur fram að útgefendurnir sem fengu styrk úr byggðaáætlun eru staðsettir á Akureyri, Akranesi, Ólafsvík, Siglufirði, Patreksfirði og Reykjanesbæ. Auk þess er einn með aðsetur í Reykjavík og á Selfossi. Loks er þarna á listanum Björt útgáfa sem gefur út Hafnfirðing.

Guðni hefur einnig horn í síðu Hafnfirðings vegna þess að miðillinn hafi birt keypt efni frá Hafnarfjarðarbæ.

Guðni hefur sent fyrirspurn til Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra vegna málsins. Í harðorðri grein sinni staðhæfir hann að Hafnfirðingur sé undir verndarvæng meirihlutaflokkanna í Hafnarfjarðarbæ:

„Er hér með skorað á Lilju Alfreðsdóttur að útskýra hvers vegna fjölmiðli innan höfuðborgarsvæðisins, sem er undir verndarvæng Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í Hafnarfirði, er úthlutað styrk úr byggðaáætlun – þrátt fyrir skýrar reglur um að einungis fjölmiðlar utan höfuðborgarsvæðisins geti fengið slíka styrki.“

Bæjarfulltrúi efnir til Facebook-deilna

Bæjarfullrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, Friðþjófur Helgi Karlsson, tekur málið upp á Facebook-síðu sinni, deilir grein Guðna og segir:

„Það verður fróðlegt að sjá Lilju Alfreðsdóttur útskýra hvers vegna fjölmiðli innan höfuðborgarsvæðisins, sem er undir verndarvæng Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í Hafnarfirði, er úthlutað styrk úr byggðaáætlun – þrátt fyrir skýrar reglur um að einungis fjölmiðlar utan höfuðborgarsvæðisins geti fengið slíka styrki.“

Fjörlegar og harðorðar umræður eru undir færslu Friðþjófs. Ingi Tómasson ritar:

„Held að þú þurfir að gera betur grein fyrir máli þínu, þá sérstaklega varðandi fjölmiðilinn sem þú vísar í en nafngreinir ekki. Dylgjur sem þessar á kostnað aðila sem heldur úti fjölmiðli í bæjarfélaginu eru ómerkilegar og ekki boðlegar. Svo mættir þú kynna þér málið betur, m.a. ræða við útgefandan um lyktir styrksins sem vísað er í sem þú segir að sé undir verndarvæng Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í Hafnarfirði. En svo sem ekkert sem kemur á óvart í ómerkilegum málfluttningi ykkar í Samfylkingunni.“

Tryggvi Rafnsson sakar Friðþjóf og Guðna um að sverta nafn konu sem er að rembast við að reka einyrkjaútgáfu, en Olga er eini starfsmaður Hafnfirðings. Hann segir:

„Það hvernig nafn Björt Útgáfu, blaðsins Hafnfirðingur og Olgu (sem er eini eigandi og starfsmaður útgáfunnar) er dregið inní umræðuna af ykkur finnst mér vera ömurlegt! Það er ekkert mál að spyrja allra þessara spurninga án þess að sverta nafn og mannorð konu sem er að reyna að rembast við að reka einyrkja fyrirtæki og halda hér úti bæjarmiðli.
Þið getið haft ykkar skoðanir á því hvernig meirihlutinn starfar, haft ykkar álit á þeim og þeirra verkum og hvað ykkur finnst vera gott bæjarblað og hvað ekki en berjið þá á pólitíkusunum og krefjist svara en ekki nota Olgu og hennar lífsviðurværi sem svipu!
Ég efast um að ef þið skoðið efnistök og innihald bæjarmiðlana hér í Hafnarfirði að þið verðið á þeirri skoðun að Björt útgáfa sé pólitískur leppur meirihlutans! En það er bara mín skoðun.“

Guðni Gíslason blandar sér einnig í umræðurnar, hnykkir á fyrri röksemdum og kvartar yfir því að Hafnarfjarðarbær hafi keypt meira af auglýsingum af Hafnfirðingi en Fjarðarfréttum.

Hakaði í vitlausan reit

Olga Björt, eigandi Bjartrar útgáfu og ritstjóri Hafnfirðings, hefur ekki blandað sér í þessa umræðu. Er DV bar málið undir hana sagði hún að mistök hafi ráðið því að hún fékk þennan styrk og leiðrétting á málinu sé í farvegi:

„Það er alveg rétt sem Tryggvi segir í þessum þræði. Guðni hefur aldrei hringt í mig, sent mér skilaboð eða tölvupóst til að gefa mér færi á að svara fyrir mig þegar hann fjallar um mig eða mitt fyrirtæki. Og ef hann hefði gert það t.d. í þessu tifelli, þá hefði ég alveg getað sagt honum að ástæða þess að ég fékk þennan styrk var að ég hakaði fyrir misskilning í reit sem ég hélt að væri fyrir alla staðbundna fjölmiðla. Því þeir berjast allir í bökkum, óháð staðsetningu. Það var nú allur „ásetningurinn“. Og enginn gerði athugasemd við það í öllu ferlinu. Ráðuneytið er í sambandi við mig vegna þess og það er í sínum farvegi.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum