Elena Ortiz, eiginkona Kiko Femenia, leikmanns Watford á Englandi, fæddi barn í vikunni en tímasetning fæðingarinnar hefur vakið athygli. Barnið kom nefnilega í heiminn 9 mánuðum eftir að Femenia og félagar hans í Watford urðu fyrsta liðið til að sigra Liverpool á síðasta tímabili.
Liverpool hafði unnið 26 leiki og gert eitt jafntefli á tímabilinu þegar þeir spiluðu gegn Watford á útivelli. Watford var þá í fallbaráttu og átti raunar eftir að falla úr deildinni. Burt séð frá því þá náði Watford að sigra leikinn örugglega með þremur mörkum gegn engu.
9 mánuðum eftir sigurinn fæddi Elena síðan barnið og því virðist vera sem þau hafi verið hæstánægð eftir sigur Watford á Liverpool. Stuðningsmenn Watford óskuðu parinu til hamingju með barnið á samfélagsmiðlum. „Til hamingju og sérstakar hamingjuóskir til Kiko sem hafði greinilega ennþá kraft til að skoppa í rúminu eftir Liverpool leikinn,“ sagði einn stuðningsmaður. „Einn af okkur!“ sagði síðan annar stuðningsmaður.