fbpx
Sunnudagur 05.maí 2024
Fókus

Tímavélin – Kári Stefánsson í gegnum árin – „Það er nánast eins og Guð sé kominn heim“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 15. nóvember 2020 10:10

Mynd/timarit.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kári Stefánsson hefur verið áberandi í baráttuni við COVID-19 á Íslandi. En Kári engan veginn ókunnugur því að vekja athygli.

„Það er nánast eins og Guð sé kominn heim; dálítið sposkur á svip, örlítið framandlegur með vel snyrt skegg og ber sig heimsmannslega,“ svo skrifaði Illugi Jökulsson í Dag í febrúar árið 1998. „Ég á við Kára Stefansson sem sneri heim frá Bandaríkjunum fyrir örfáum misserum og virðist á ótrúlega skömmum tíma hafa byggt upp risafyrirtæki á sviði erfðagreiningar; risafyrirtæki á okkar mælikvarða hér á Íslandi og jafnvel þótt víðar væri leitað í veröldinni að fyrirtækjum á því sviði þar sem hann er að hasla sér völl.“

Kári Stefánsson var snúinn aftur heim til Íslands eftir tveggja áratuga fjarveru. Hann var ekki þjóðþekktur maður þegar hann hélt utan, en á örskömmum tíma eftir endurkomuna kannaðist nánast hver einasti Íslendingur við nafn hans og hafa þeir gert það allar götur síðan.

Kári Stefánsson fæddist í Reykjavík 6. apríl 1949. Foreldrar hans voru Stefán Jónsson, fréttamaður, alþingismaður og rithöfundur og Sólveig Halldórsdóttir, og Kári var næstyngstur fjögurra bræðra í fimm systkina hópi.

Tvítugur Kári

Kári keisari

Hann ólst upp í Norðurmýri og Vesturbæ, gekk í Hagaskóla og síðar í Menntaskólann í Reykjavík.

Kári var strax þá farinn að láta á sér kveða. Þó ekki á sviði erfðafræðinnar heldur í leiklist. Hann tók þátt í uppsetningu Hagaskóla á leikritinu Gullna hliðið, þar sem Kári lék sjálfan Jón, en leikritið snýst um baráttu konu Jóns fyrir því að koma sál hans inn í himnaríki

Í framhaldsskóla hafði áhuginn á leiklistinni ekki dvínað og tók Kári þátt í uppsetningu leikfélags MR, Herranótt, á leikritinu Bubbi kóngur, sem ungur Davíð Oddsson fór með aðalhlutverkið í og fékk þaðan viðurnefnið Dabbi Kóngur. Kári lék þar Alexander Rússlandskeisara og sagði um leik hans í Skólablaðinu: „Kári Stefánsson lék afkáralegan, en ofurhlýlegan Rússakeisara og svipti Bubba sprota veldisins á fyndinn hátt, góðlátur gamlingi andspænis fulltrúa grimmdarinnar.“

Persóna Kára svipti persónu Bubba valdi sínu í leikritinu en sögum fer af því að innan veggja Menntaskólans hafi hið gagnstæða átt sér stað. Kári tók það á sig að tryggja Davíð kjör í stöðu inspector scholae, formanns nemendafélagsins. Segir sagan að Kári hafi leitað að álitlegum vinstrimanni til að bjóða sig fram í embættið og hafi Davíð orðið fyrir valinu. Davíð hafi spilað hlutverk vinstri frambjóðandans, en komið út úr skápnum sem hægri maður um leið og hann hafði náð kjöri.

Kári á undanþágu

Næst lá leið Kára í læknisfræðina við Háskóla Íslands. Framan af hafði Kári haft hug á því að verða skáld, en gerðist þó fyrst sinn eigin harðasti gagnrýnandi og ákvað að helga öll sín skáldverk skúffunni.

Fer sögum af því að hann hafi fyrir algjöra tilviljun og hvatvísi skráð sig í læknisfræði með félaga sínum, en fljótlega varð ljóst að Kári hafði fundið sína hillu í lífinu

Kári fór ekki hljóðlátlega í gegnum læknisfræðina í Háskólanum. Hann var lítið hrifinn af kennsluaðferðunum og ekkert hrifinn af hinum og þessum reglum sem nemendum bar að fara eftir. Hann var gjarn á að sækja um undanþágur frá reglum, samnemendum sínum til lítillar hrifningar. Sem betur fer átti Kári sér hauk í horni.

Össur Skarphéðinsson skrifaði svo í DV 1998: „Kári hefur alltaf storkað heiminum. Á einum af fyrstu fundunum eftir að ég kom í Stúdentaráð Háskólans var eitt umræðuefna á dagskrá bréf, sem prófessor í læknadeild hafði skrifað rektor, þar sem krafist var að Kári yrði rekinn. Jóhann Axelsson var deildarforseti og varði fóstra sinn. Seinna sagði hann að þetta hefði verið þreytandi tími. Hann hefði ekki mátt bregða sér úr landi án þess að læknadeild reyndi að reka Kára!“

Þekkt er einnig að Kára tókst að fá læknaleyfið þrátt fyrir að hafa ekki lokið kandídatsári og tilskildu starfi sem kandídat út á landi, eins og reglur læknadeildar gerðu kröfu um. Kári sótti um undanþágu og hét því að ljúka þessu skilyrði þegar hann snéri aftur úr sérnámi, gegn því að fá leyfið strax. Hins vegar hefur Kári enn ekki komist í það verkefni, um fjórum áratugum síðar.

Kári fór í sérnám í taugalækningum, taugameinalækningum og taugavísindum við Háskólann í Chicago. Síðar starfaði hann hjá læknadeildinni áður en hann gerðist prófessor við Harvard háskóla og yfirlæknir taugameinalækninga við sjúkrahús í Boston.

En Ísland kallaði hann heim. Og hvílík heimkoma.

Kári í jötunmóð

Kári sneri aftur með fjármagn og háleitar hugmyndir og fljótlega hafði Íslensk erfðagreining hafið starfsemi sína og vakið heimsathygli. Kári varð nánast á einni nóttu einn af umdeildustu Íslendingunum, ekki síst vegna þeirra sagna sem fóru af fasi hans og persónu.

Össur skrifaði í grein sinni 1998: „Ferill og margslunginn persónuleiki Kára einkennist af þverstæðum. Vísindamaðurinn sem vildi verða skáld er í dag ein skærasta stjarna landsins á sviði viðskipta. Á dögum Víetnamstríðsins barðist hann sem ungur sósíalisti gegn heimsvaldastefnu Bandaríkjanna en sækir nú styrk sinn til Wall Street.“ Aðeins nokkrum árum eftir heimkomu Kára var gefin út bók um ævi hans og afrek. Höfundur bókarinnar, sem hafði gefið hana út í óþökk Kára, var ungur sagnfræðingur, Guðni Th. Jóhannesson, sem í dag er forseti Íslands. Bókin kallast Kári í jötunmóð og vísar þar titillinn bæði til ofurmannlegs metnaðar þessa merkilega manns sem sagður er búa yfir „storkandi greind“, sem og skaps Kára sem mörgum sögum hefur farið af í gegnum tíðina.

Kári varð fljótlega þekktur fyrir óheflaða framkomu, einkum í garð fjölmiðla. Margir blaðamenn sem tóku hann tali gátu ekki stillt sig um að hefja greinar sínar á ítarlegum lýsingum á því hvernig Kári tók á móti þeim, eins og til dæmis í viðtali Kára við DV árið 2013:

„Þú skalt ekki halda það í eina sekúndu að þú skiptir mig nokkru máli,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri DeCode, hastarlegur og hvassbrýndur við ljósmyndara DV við upphaf viðtals blaðsins við hann.“

Í sama viðtali var Kári spurður út í sögur af skapofsanum og þeim orðrómi að fólk væri upp til hópa hrætt við hann

„Ég er bara svona skrítinn maður. Ég nota sjálfsagt skringilegt hegðunarmynstur til að skemmta sjálfum mér meira en öðrum með þessu, það mætti segja mér það. […] Hvernig getur fólk verið hrætt við þennan ljúfa mann? Já, ég er alltaf að grínast, langoftast er þetta bara húmor. Mér þykir vænt um fólk. En mér finnst skelfileg tilhugsun að leiðast.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Karlmenn lýsa skelfilegri aukaverkun af Ozempic – „Þú getur sagt bless við kynlíf“

Karlmenn lýsa skelfilegri aukaverkun af Ozempic – „Þú getur sagt bless við kynlíf“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Aníta hætti að drekka áfengi og finnur strax mikinn mun

Aníta hætti að drekka áfengi og finnur strax mikinn mun