fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Eyjan

Sigur Bidens stærri en fyrst var talið – Stefnir í mestu kjörsókn síðan áður en konur máttu kjósa

Heimir Hannesson
Mánudaginn 9. nóvember 2020 10:30

mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í svo til heila vinnuviku, og miklu lengur en það ef út í það er farið, beindist kastljósið að svokölluðum sveifluríkjum í Bandaríkjunum, ríkjum þar sem mjótt var á munum milli forsetaframbjóðendanna Joe Biden og Donald Trump. Strax á kosninganótt varð ljóst að Trump hafði sigrað væntingar og um tíma leit út fyrir að hann gæti haldið velli og hafið annað kjörtímabil sitt sem forseti Bandaríkjanna nú í janúar.

Svo gerðist það sem Biden/Harris framboðið hafði sagt að myndi gerast. Eftir því sem utankjörfundaratkvæðin voru talin, breikkaði bilið. Í fyrri kosningum hafa Demókratar verið duglegri í að nýta sér möguleika á utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Það átti því ekki að koma neinum á óvart. Það sem kom á óvart var fjöldinn. Daginn fyrir kjördag, höfðu 102 milljónir manna greitt atkvæði, í kosningum þar sem tæplega 150 milljón atkvæði féllu. Það var því ekki við öðru að búast, sér í lagi í ljósi þess að í sumum ríkjum, þar á meðal Pennsylvaníu, voru þessi atkvæði, samkvæmt lögum ríkisins, ekki talin fyrr en að talningu „hefðbundinna“ atkvæða lokinni. Önnur ríki, til dæmis Nevada, heimila móttöku utankjörfundaratkvæða sem voru póstlögð á kjördag eða fyrr, og voru því enn að taka á móti atkvæðum í lok síðustu viku.

Þá ber þess að geta að talningu er hvergi nærri lokið. Enn á eftir að telja 11% atkvæða í Kaliforníu og 25% í New York. Tvö risastór ríki. Það breytir þó engu um úrslitin, enda Biden að gjörsigra bæði ríkin. Þá eru úrslit óljós í Georgíu, þó þar stefni vissulega í Biden sigur. Úrslit í Alaska liggja enn fremur ekki fyrir, en þar hafa aðeins 50% atkvæða verið talin enda hefst talning utankjörfundaratkvæða ekki fyrr en á morgun, 10. nóvember. Í Norður Karólínu er einnig óljóst hvernig fer. Líklegast þykir að Biden taki Georgíu og Arizona af þeim ríkjum hvers úrslit eru enn óljós. Þá endar Biden með 306 kjörmenn. Það er stærri sigur en Trump sigraði með árið 2016 og stærri en báðir sigrar George W. Bush. Reyndar má benda á að engin forseti sem sigraði með milli 300 og 309 kjörmönnum sat tvö full kjörtímabil.

Harry S. Truman vann með 303 og bauð sig ekki fram aftur. John F. Kennedy vann líka með 303 og var myrtur á sínu fyrsta kjörtímabili. Richard Nixon vann með 301 kjörmönnum og sagði af sér á öðru kjörtímabilinu sínu (reyndar eftir að hafa unnið einn stærsta sigur sögunnar, með 520 kjörmönnum af 538), og Donald Trump, sem vann með 304 atkvæðum og tapaði endurkjöri í síðustu viku. Joe Biden verður 78 ára gamall í lok nóvember. Þegar Biden sver embættiseið sinn verður hann jafn gamall og Reagan var þegar hann lét af embætti.

Þó kjörsóknartölfræði liggur ekki fyrir þar sem talning atkvæða er enn í gangi, er ljóst að hún er mjög mikil. CNN greinir frá því að svo gæti vel farið að allt að 65% Bandaríkjamanna hafi tekið þátt í þessari kosningu, sem er hæsta hlutfall síðan árið 1900. Þá höfðu konur ekki kosningarétt.

Þá eru góðu fréttirnar fyrir Demókrata ekki aðeins bundnar við Hvíta húsið, því nú er ljóst að neðri deildin helst blá næstu tvö árin, og efri deildin gæti sveiflast yfir til Demókrata. Kosið verður á ný um tvö sæti Georgíu í öldungadeildinni í janúar. Sigri Demókratar hana fer Biden af stað með sitt fyrsta kjörtímabil með sama hætti og Clinton og Obama, með báðar deildir þingsins með sér í liði.

Þá er ljóst að aldrei nokkurn tímann hefur neinn fengið jafn mörg atkvæði og Joe Biden fékk í kosningunum. Þegar þetta er skrifað er talan komin upp í 75 og hálfa milljón. Sló hann þar met Baracks Obama frá árinu 2008, þegar hann hlaut um 69 og hálfa milljón atkvæða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum