Við rákumst á mjög skemmtilega samantekt í dag þar sem búið var að taka saman lista með 20 mest niðurlægjandi töpum í knattspyrnusögunni.
Margir leikir á þessum lista gleymast seint og fóru jafnvel fram nýlega eða árið 2019.
Skemmtileg lesning sem má finna hér.
20. Tottenham 9-1 Wigan (2009)
Wigan átti aldrei möguleika í þessum úrvalsdeildarleik. Jermain Defoe fór á kostum og skoraði fimmu í seinni hálfleik.
19. Stoke 6-1 Liverpool (2015)
Stærsta tap Liverpool í efstu deild síðan 1963. Þetta var einnig kveðjuleikur Steven Gerrard og ljóst að hann gat varla kvatt á verri hátt.
18. Real Madrid 2-6 Barcelona (2009)
Thierry Henry og Lionel Messi fóru á kostum í þessum leik er Real Madrid steinlá heima gegn Pep Guardiola og hans lærisveinum.
17. England 1-2 Ísland (2016)
Leikur sem allir Íslendingar þekkja vel. Ísland sló England út í 16-liða úrslitum EM í Frakklandi árið 2016 þar sem Ragnar Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson komust á blað.
16. Manchester United 9-0 Ipswich (1995)
Var lengi stærsti sigur í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. 43 þúsund manns mættu til að horfa á þessa niðurlægingu.
15. Southampton 0-9 Leicester City (2019)
Er á toppnum ásamt leik United og Ipswich. Gerðist á þessu tímabili þar sem Southampton varð sér til háborinnar skammar.
14. Middlesbrough 8-1 Manchester City (2008)
Richard Dunne í vörn City fékk að líta rautt spjald eftir 15 mínútur í þessari niðurlægingu á Riverside. Leikmenn eins og Steward Downing, Afonso Alves og Fabio Rochemback voru í liði Boro.
13. MK Dons 4-0 Manchester United (2014)
Stjörnuprýtt lið United mætti til leiks á heimavöll MK Dons í deildarbikarnum sem lék þá í þriðju efstu deild. Louis van Gaal var stjóri United sem tefldi þó ekki fram sínu sterkasta byrjunarliði.
12. Newcastle 5-1 Tottenham (2016)
Tottenham þurfti að sleppa við tap til að enda fyrir ofan Arsenal í fyrsta skiptið í 20 ár. Töpuðu illa gegn Newcastle sem var fallið. Heimamenn voru einnig manni færri.
11. Barcelona 5-0 Real Madrid (2010)
Jose Mourinho upplifði þarna líklega mest niðurlægjandi tap ferilsins. Xavi, Pedro, David Villa (2) og Jeffren skoruðu mörk Barcelona.
10. Tottenham 2-7 Bayern Munchen (2019)
Gerðist í Meistaradeildinni á þessu tímabili. Serge Gnabry var allt í öllu og skoraði fernu í hörmulegu tapi heimamanna.
9. Manchester City 6-0 Watford (2019)
Skammarleg frammistaða Watford í úrslitaleik. Væri eðlilegra í ensku úrvalsdeildinni en ekki í úrslitaleik bikarsins.
8. Bandaríkin 13-0 Taíland (2019)
Kvennalið Bandaríkjanna fékk mikla gagnrýni fyrir þennan leik á HM enda fögnuðu þær hverju marki verulega gegn annars veiku tælensku liði sem átti aldrei möguleika. Stærsti sigur í sögu HM.
7. Spánn 1-5 Holland (2014)
Skelfilegt HM heilt yfir fyrir Spánverja. Robin van Persie skoraði flugskallann fræga í þessari niðurlægingu.
6. Manchester United 1-6 Manchester City (2011)
Óásættanlegt tap á heimavelli í grannaslag. Margir muna eftir „Why Always Me?“ fagni Mario Balotelli í þessum leik og þessi þrjú stig hjálpuðu City að vinna titilinn að lokum.
5. Liverpool 4-0 Barcelona (2019)
Barcelona var með 3-0 forystu fyrir leikinn á Anfield en mætti svo sannarlega ekki til leiks í seinni viðureigninni í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Liverpool fór á kostum og endaði á að vinna mótið.
4. Manchester United 8-2 Arsenal (2011)
Lið Arsenal var alls ekki sterkt í þessum leik en þarna mátti finna menn eins og Carl Jenkinson, Johan Djouru og Armand Traore í vörninni. Að fá á sig ÁTTA mörk er hins vegar hrein hörmung í stórleik.
3. Barcelona 6-1 PSG (2017)
Líklega besta endurkoma í sögu Meistaradeildarinnar. PSG vann fyrri leikinn 4-0 á heimavelli en tapaði svo þeim seinni 6-1.
2. Ástralía 31-0 Bandaríska Samóa (2001)
Leikur sem fór fram í undankeppni HM. FIFA þurfti að breyta reglunum eftir þetta tap sem var það stærsta í sögu landsleikja.
1. Brasilía 1-7 Þýskaland (2014)
Líklega versta tap sögunnar. Fór fram á HM árið 2014 sem var haldið í Brasilíu. Heimamenn voru gjörsamlega ömurlegir í undanúrslitunum og fengu skell í boði Þjóðverja.