,,Ég held að þetta hafi hjálpað mér, að vekja athygli á mér. Ekki að ég hafi verið að sækjast eftir því að þeir væru að pína mig,“ sagði hinn geðþekki Hörður Magnússon, þegar hann ræddi við hlaðvarpsþáttinn Spekingar spjalla á dögunum.
Hörður var lengi vel einn ástsælasti íþróttafréttamaður þjóðarinnar, starfið tók hann að sér eftir frábæran feril sem knattspyrnumaður.
Þegar Hörður var að gera það gott á Stöð2 voru vinnufélagar hans að hrekkja hann reglulega, Hödda Bögg var dagskrárliður sem Auðunn Blöndal og félagar voru með. Fyrst um sinn hafði Hörður gaman af en fékk svo nóg.
,,Það getur verið auðvelt að plata mig, ég trúi fólki yfirleitt. Á tímabili var þetta mjög skemmtilegt, ég var svo orðinn þreyttur á þessu. Ég lokaði algjörlega á þetta, að menn yrðu að fara að taka mig alvarlega.“
,,Auddi Blö, guð blessi hann. Eitthvað það óþægilegasta sem ég lenti í var stjórnun, Auddi stjórnaði mér í Keflavík. Ég fór að spyrja óþægilegra spurninga, til dómara meðal annars. Þeir héldu að íþróttafréttamaðurinn, Hörður Magnússon væri orðinn geðveikur. Maður spilaði með.“