Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann ræðir gjaldtökur á ferðamannastöðum. Sífellt fleiri staðir taki upp beina gjaldtöku og það komi sér ákaflega illa fyrir efnaminni fjölskyldur.
Hann segir „Það er eins gott að gleyma ekki greiðslukortinu þegar farið er með fjölskylduna að skoða „landið okkar““.
Nefnir hann fjölmargar náttúruperlur þar sem ferðamenn þurfa að rífa upp veskið til þess að sjá:
Helgafell – 400 kr
Kerið – 400 kr
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum – 500 kr
Skaftafell – 600 kr
Seljalandsfoss – 700 kr
Víðgelmir í Hallmundarhrauni – 6500 kr
Raufarhólshellir – 6500 kr
Einnig nefnir hann að gjaldtaka standi til við fleiri perlur, til dæms Dettifoss. „Nú kostar líka þrjú hundruð krónur að pissa í Hörpu og fjögur hundruð og níutíu að horfa á fjallahringinn úr Perlunni. Allt fær sitt verð. Hugmyndir hafa komið fram um að rukka inn í Skálholtskirkju, til dæmis fimm hundruð krónur svo gera megi við altaristöfluna. Möguleikarnir eru óþrjótandi“. Eigendur Kersins hafi til að mynda grætt 30 milljónir af gjaldtökunni á síðasta ári, með rukkun sem Ögmundur telur ólögmæta.
Hann hefur áhyggjur af því að Íslendingar muni ekki hafa jafnan aðgang að landinu og menningunni. „Hvernig væri að velta því fyrir sér hvernig það verður fyrir tekjulitla fjölskyldu að ferðast um Ísland ef fer sem horfir með rukkara á hverju horni? Nema að gefin verði út sérstök ölmusukort fyrir þá sem ella gætu aldrei notið landsins síns.“