fbpx
Mánudagur 13.maí 2024
Eyjan

Sigurganga Bernies Sanders – en getur hann sigrað Trump?

Egill Helgason
Sunnudaginn 23. febrúar 2020 19:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og staðan er núna virðast tveir gamlir karlar ætla að berjast um forsetaembættið í Bandaríkjunum. Donald Trump verður orðinn 74 ára í kosningunum í nóvember en Bernie Sanders 79 ára. Stuðningsmenn Sanders fagna nú ákaft, hann virðist vera að skjóta mótframbjóðendum sínum í röðum Demókrata ref fyrir rass. Er sigurvegari í Nevada, en framundan er ofur-þriðjudagurinn, það er 3. mars, en þá er kosið í fjölda ríkja, meðal annars í Kaliforniu,  Texas, Minnesota og Massachusetts. Sanders er svo sannarlega  með vindinn í seglin fyrir kosningarnar þennan dag.

Sanders á mjög ákafa aðdáendur – eins og birtist fyrir fjórum árum þegar hann atti kappi við Hilary Clinton í forkosningum. Sanders hvatti reyndar fylgismenn sína til að kjósa Hilary þegar útséð var með að hún yrði frambjóðandinn, en fylgismennirnir eru ennþá reiðir út af sigri sem þeir telja að hafi verið stolið af Sanders. Nú er sigur í sjónmáli og maður finnur hvernig þeir eflast á ný. En á sama tíma dregur það athyglina að því hversu margyrklofin hreyfing Demókrata er – og þá staðreynd hvað á fjórum árum hafa þeir ekki fundið neinn sem gæti virst sæmilega öruggur með að sigra Donald Trump, þennan afar óhefðbundna forseta.

Trump hefur reyndar verið að styrkja sig. Hann bætir við sig í skoðanakönnunum sem mæla frammistöðu forsetans. Hagkerfið er ennþá í fullum gangi – niðursveifla sem hefur verið spáð hefur ekki orðið að veruleika. Atvinnuleysi er lítið. Tilraunir Demókrata til að fá hann dæmdan frá embætti mistókust og það hefur gert Trump að óskoruðum foringja Repúblikana – eins óhugsandi og það virtist á sama tíma fyrir fjórum árum þegar hann var í framboði og áhrifamenn innan flokksins fundu honum flest til foráttu.

Á móti hafa Demókratar engan foringja sem getur talað fyrir munn stærsta hluta hreyfingarinnar. Á mælikvarða bandarískra stjórnmála er Bernie Sanders lengst til vinstri, hann notar meira að segja orðið hræðilega „sósíalismi“, það er öruggt að Repúblikanar eru tilbúnir að fara í mjög óvægna herferð gegn honum þar sem Sanders verður lýst sem óþjóðlegum róttæklingi, jafnvel kommúnista.

Tilraunir Mikes Bloomberg, eins ríkasta manns í heimi, til að kaupa sig inn í forsetakjörið eru hálf aumkunarverðar.. Maður skyldi þó aldrei vanmeta afl peninganna. Í Bandaríkjunum er auðræði. Einn möguleikinn er sagður sá að enginn af frambjóðendum Demókrata muni ná meirihluta og því þurfi flokksþing að úrskurða hver verði frambjóðandinn. Það gæti rifið flokkinn á hol og gert eftirleikinn mjög auðveldan fyrir Trump.

En Sanders er heldur ekki maður sem sameinar miðjuna og vinstri vænginn í Bandaríkjunum á bak við sig. En það er heldur enginn í sjónmáli sem gæti það. Hann gæti að vísu dregið ungt fólk á kjörstað – það er honum nauðsyn, en „hófsamir“ Demókratar munu eiga í mestu vandræðum með að kjósa hann. Það yrði þá varla nema vegna mikillar andúðar á Trump – sem er ekkert sérlega gott upplegg í kosningum.

Demókratar eru semsagt eins og höfuðlaus her. Og við fáum líklega kosningum milli þessara tveggja gömlu karla sem eru yst úti á jöðrunum í bandarískum stjórnmálum, annar lengst til hægri, hinn langt til vinstri – það verður á sinn hátt sögulegt. En hvort það er gæfulegt fyrir Bandaríkin er svo annað mál – klofningurinn innanlands magnast enn og hin pólitíska óeining.

Svo verður að segjast eins og er, í þessari baráttu er Trump miklu sigurstranglegri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Steinunn Ólína – ríkisstjórnin er eins og plastpokamaður

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Steinunn Ólína – ríkisstjórnin er eins og plastpokamaður
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Jón Sigurður skrifar: Ung, gröð og rík í flutningi Svedda tannar

Jón Sigurður skrifar: Ung, gröð og rík í flutningi Svedda tannar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Reitir kynna áform um uppbyggingu á Kringlusvæði

Reitir kynna áform um uppbyggingu á Kringlusvæði
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Um 25 þúsund gestir heimsóttu Verk og vit

Um 25 þúsund gestir heimsóttu Verk og vit