Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður, rekur stuttlega „sjötíu ára illskiljanlega hefð“ Íslendinga um verslunarmannahelgina sem hann segir einkennast af ofdrykkju, slagsmálum, skrílslátum og sóðaskap.
Minnist hann landsmóts ungmennafélaganna sem haldin var í Hveragerði árið 1949. Þá voru áfengisdauðir mótsgestir geymdir í strigapokum uns rann af þeim morguninn eftir.
Eftir „skrílssamkomu“ í Brautarholti á Skeiðum árið 1953 var gripið til þess ráðs að banna auglýsingar í útvarpi um dansleiki hljómsveita. Það skilaði þó litlu.
Hann nefnir hátíðir í Þjórsárdal og Húsfelli sem sérstaklega slæmar drykkju-og skrílslátasamkomur. Hátíð við Hreðavatn um miðja síðustu öld vakti einnig hneykslun fólks vegna unglingadrykkju og íkveikjur í skógarkjarri.
„Núna eru það Flúðir þar sem streyma árlega flúðir áfengis og fíkniefna og sóðaskapurinn er yfirgengilegur. Ekki dugar minna en „allt tiltækt lögreglulið“ til að afstýra stórvandræðum.“
Ómar veltir því fyrir sér hvort þetta sé séríslenskt fyrirbæri. „Hvað er það í þjóðareðlinu sem viðheldur svona ástandi?” Íslendingar hafi farið í hópferðir á milljónasamkomur bæði austan og vestan hafs. „Þar sem ekki sást svo mikið sem sígarettustubbur eða karamellubréf þótt hátíðirnar stæðu dögum saman.”