„Að vera á setti er það skemmtilegasta sem ég geri og hefur verið síðan ég var sextán ára. Á þeim aldri var þarna búið að planta einhverjum fræjum sem eru enn að springa út í dag,“
segir Atli Óskar Fjalarsson, leikari og framleiðandi, en hann er flestum kunnugur úr kvikmyndunum Órói og Þrestir, svo dæmi séu nefnd.
Árið 2016 var hann útnefndur rísandi stjarna ásamt níu öðrum evrópskum leikurum á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín, Berlinale, og kynntist hann þeirri tilfinningu snemma á lífsleiðinni hvernig það er að vera á tökustað. Hann var ekki lengi að finna sig á því sviði á unglingsárunum samhliða því að fá ákveðna útrás á YouTube-rásinni sinni.
Atli er nýr gestur í Föstudagsþættinum Fókus hjá DV og þar talar hann meðal annars um leiklistina, ný verkefni, unglingabólur og bransakvöldin í Los Angeles.
Stuðaði Grafarholtsbúa og komst í fréttirnar
Atli lék í sinni fyrstu kvikmynd 14 ára gamall, stuttmyndinni Smáfuglum eftir Rúnar Rúnarsson. Í kringum fermingaraldurinn fékk Atli borðtölvu sem breytti öllu lífi hans.
Með þessari tölvu fór hann að prófa sig áfram í vaxandi YouTube-samfélaginu. Þetta var árið 2005 og varð Atli fljótt þekktur undir heitinu Atli123. Rás hans óx fiskur um hrygg og má segja að leikarinn sé einn af fyrstu virku íslensku YouTube-stjörnunum.
„Ég byrjaði bara að klippa saman einhver vídeó og setti það saman sem mér fannst fyndið. Seinna meir vatt þetta upp á sig og varð meira reglulegt efni. Ég áttaði mig fyrst á því að fleiri en bara við vinir mínir værum að horfa á þetta, þegar yngri bróðir minn úr öðrum skóla nefndi við mig að aðrir væru að fylgjast með þessu. Mér fannst það skrítið, því margir voru greinilega að horfa á mig og fannst ég ekki kúl, eða asnalegur. Þá fékk ég fyrsta dissið og gerði svo í raun vídeó um þá,“ segir Atli.
„Það var í eintalsvídeói þar sem ég hniggaði yfir Grafarholtsfólkið. Það vakti síðan mikla athygli, Stöð 2 hringdi í mig og vildi sýna þetta í kvöldfréttunum. Það var byrjunin á þessari sprengju.“
Bransakvöldin urðu að fyrirmynd
Þeir Atli og Elías Helgi Kofoed-Hansen standa að miðstöð fyrir upprennandi listafólk þar sem hressilegar pallborðsumræður verða í boði. Miðstöðin nefnist Reykjavík Creative Hub og var fyrsti fundur haldinn í ágúst.
Atli segir hugmyndina að þessari miðstöð ganga einfaldlega út á það að hlusta á reynsluríkt listafólk úr öllum áttum tala um sitt fag og gefa yngra fólki ráð, en jafnframt verður þarna í boði fyrir upprennandi fólk í bransanum að kynna sínar hugmyndir og fá viðbrögð við þeim.
Þeir Atli og Elías eru miklir mátar og léku til að mynda saman í hinni stórvinsælu kvikmynd, Óróa. Kveikjan að þessari miðstöð varð þó til í Bandaríkjunum, en þeir stunduðu þar saman nám við New York Film Academy í Los Angeles.
„Við Elías grínumst oft með það að hann hafi farið í prufu fyrir að gerast besti vinur minn. Ég var ráðinn á undan honum. Tíu árum síðar er hann enn besti vinur minn. Það má segja að hann hafi neglt þessa prufu,“ segir Atli.
„Þegar við bjuggum úti kynntumst við alls konar félagslífi í tengslum við kvikmyndabransann: hugmyndasmiðjum, svonefndum „networking“-kvöldum og handritaklúbbum þar sem mátti heyra og sjá í hvaða pælingum fólk var og fá að spegla sín eigin verkefni í þeirra eða jafnvel koma saman í einhverri sköpun. Hvort sem það var í kvikmyndum, sjónvarpi eða einhverju allt öðru.“
Vitleysisgangur í Los Angeles
Atli segir að þegar þeir Elías héldu til Bandaríkjanna í nám hafi það verið markmið að gera engin plön fyrirfram, sérstaklega þá hvað húsnæði varðaði og annað slíkt. „Okkur Elísasi finnst mjög gaman að búa til sögur og vera með vitleysisgang. Ég hefði aldrei getað verið þarna úti í Los Angeles án hans, að glíma einn við allt þetta kjaftæði sem felst í því að flytja til annars lands.
Það var fáránlegt og geggjað að vera með jafnmikinn vitleysing með sér til að fara blint út í þetta ævintýri. Okkur fannst það sniðug hugmynd að sofa á alls konar sófum hjá fólki sem við þekktum ekki. Við fundum síðu sem heitir CouchSurfing og vorum búnir að stilla því upp að gista hjá alls konar fólki. Við fórum á milli bæja, kynntumst fjölda fólks og svo fundum við Elías AirBnb-íbúð og bjuggum saman í einu herbergi í mánuð,“ segir Atli.
„Komandi frá rólega Íslandi er ótrúlegt að kynnast skrifræðinu sem fylgir Bandaríkjunum. Hérna heima geturðu hringt í bankann þinn og þú segir eitthvert númer, þá vita allir hver þú ert. Í Bandaríkjunum þurfti ég annars vegar að skrifa undir tíu blaðsíðna samning til að sækja um aðgang í ræktina. Hvað þá þegar maður er farinn að græja leigusamninga og annað. Allt þarna úti er svo miklu, miklu flóknara en við erum vön hér.“
Sofnaði í miðri töku
Fyrr á þessu ári stofnaði Atli framleiðslufyrirtæki og er með ýmis verkefni í bígerð. Þegar Atli var á unglingsaldri að kynnast tökustöðum og kvikmyndagerð eins og hún leggur sig, var hann, að eigin sögn, „pirrandi krakkaleikarinn sem hékk þarna og spurði fólkið í kring hvaða takkar á græjunum gerðu hvað.“ Áhugi hans á faginu var gífurlegur, og útilokar hann ekki að leiklistinni og YouTube-tímabilinu hafi fylgt ákveðin athyglissýki. Atli var þó fastur á því að halda sig við réttu starfsbrautina þegar hann var kominn á framhaldsskólaaldurinn.
„Ég ætlaði aldrei að verða leikari. Það var aldrei planið. Ég ætlaði bara að verða læknir og fór meira að segja í Verzlunarskóla Íslands til þess að læra það. Síðan reyndist það óvart vera svo brjálæðislega gaman að leika að ég gat ekki séð fyrir mér að ég myndi gera neitt annað, það sem eftir væri af lífi mínu.“
Þegar Atli fékk hlutverkið í Óróa var hann handviss um að það ætti eftir að breyta lífi hans. Hann segir Baldvin Z, kvikmyndagerðarmann og leikstjóra, hafa veitt sér ómetanlegan stuðning í gegnum ferlið. Atli segir hvorki kvíða né óöryggi hafa einkennt hann þegar hann tók við hlutverkinu, þótt rullan hafi vissulega verið krefjandi.
„Ég var svo spenntur allan tímann og fór sjaldan skynsamlegu leiðina og fór beint heim að sofa eftir langan tökudag. Ég fór yfirleitt heim og spilaði tölvuleiki til að fá útrás, oft langt fram á nótt. Baldvini finnst gaman að segja mér söguna af því þegar ég sofnaði í miðri töku,“ segir Atli hress.