Gylfi Magnússon, hagfræðingur og formaður bankaráðs Seðlabankans, svaraði gagnrýni Halldórs Benjamíns Þorbergs Benjamínssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í dag. Forsagan er sú að Gylfi hefur brugðist hart við lagafrumvarpi um einföldun á samkeppnislöggjöf landsins. Gylfi hefur sagt að með frumvarpinu séu „blautir draumar fákeppnismógúla væru að rætast.“
Halldór Benjamín sagði í viðtali við Fréttablaðið í dag að þessi ummæli sæmdu ekki formanni bankaráðs Seðlabankans og lét að því liggja að vænta mætti aðgerða vegna ummælanna:
„Formaður bankaráðs verður að gæta þess að vegna stöðu hans er á hann hlustað, orð hans metin bæði hér á landi og erlendis. Það stendur upp á hann að skýra hvernig þetta samræmist stöðu hans og ég vænti þess að gengið verði eftir þeim skýringum.“
Gylfi svaraði þessu með stuttum pistli á Facebook-síðu sinni. Segi Gylfi að eflaust væri þægilegra fyrir viðskiptamógúla landsins ef hann hefði sig hægan:
„Sjálfsagt væri þægilegra fyrir fákeppnismógúla landsins að þessi bankaráðsformaður segði sem minnst eða talaði kannski bara einu sinni á ári um ársreikning bankans. Enda hætt við að á hann sé hlustað eins og framkvæmdastjórinn bendir á. Framkvæmdastjóranum til hugarhægðar skal þó tekið fram að hér talaði formaðurinn frekar í krafti þess að hafa verið á árum áður formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins og ráðherra samkeppnismála og hafa skrifað um þau mál sem háskólakennari og numið þau fræði sem háskólanemi. Hefur formaðurinn því ágæta þekkingu á samkeppnismálum, m.a. skilning á draumförum mógúla og martröðum neytenda. En formaðurinn bíður jafnspenntur eftir þessum skýringum sem von virðist á og framkvæmdastjórinn.“