fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Vill vera fyrirmynd án filters

Íris Hauksdóttir
Miðvikudaginn 16. október 2019 21:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hugrún Birta Egilsdóttir bar sigur úr býtum í fegurðarsamkeppninni Miss Universe Iceland en hún var krýnd Miss Supranational í keppninni sem haldin var nú í september. Hugrún fer því sem fulltrúi Íslands í keppnina úti sem haldin verður síðar á þessu ári. „Ég skráði mig í Miss Universe Iceland til að stækka tengslanetið mitt ásamt því að stíga út fyrir þægindarammann. Það gekk frábærlega því ég hafði trú á mér allan tímann og vissi að ég var búin að standa mig vel. Með því hugarfari steig ég á svið og búmm, endaði með kórónu á höfðinu.“

„Vissi að ég var búin að standa mig vel. Með því hugarfari steig ég á svið og búmm, endaði með kórónu á höfðinu.“
Mynd: Eyþór Árnason

Var búin að ákveða að ég gæti þetta
Hugrún segir undirbúning fyrir keppnina hafa verið þægilegan en hún hafi búið að góðum grunni frá fyrri þátttöku sinni í Ungfrú Ísland fjórum árum áður. „Ég ólst náttúrlega upp við sögur úr þessum heimi en amma mín, Ester Garðarsdóttir, var valin Ungfrú Reykjavík 1959. Ingibjörg, systir mín, hafnaði sömuleiðis í öðru sæti í Ungfrú Ísland árið 2008 og fékk að ferðast mikið í kjölfarið sem var frábært tækifæri fyrir hana. Það er auðvitað himinn og haf frá því hvernig formið á keppninni var þá og nú. Í dag snýst þetta meira um hverju þú vilt ná fram og hvernig þú ert að koma frá þér orði, sem hefur alltaf verið minn veikleiki. Ég hef alltaf verið mjög feimin en vildi markvisst opna mig. Það var krefjandi en ótrúlega skemmtilegt að sjá árangurinn sem kom ekki fram fyrr en á sjálfu lokakvöldinu. Þá gerðist eitthvað – ég var búin að ákveða að ég gæti þetta.“

Brotin á sál og líkama 
Hugrún er yngst fjögurra systkina og segir hún skilnað foreldra sinna hafa markað mikil þáttaskil í lífi sínu. Hún minnist stunda þar sem þau systkinin sátu í strætó með mat frá mæðrastyrksnefnd í fanginu. „Við fengum ekkert alltaf heitan mat á kvöldin en mamma reyndi eins og hún gat að gefa okkur eins gott líf og henni frekast var unnt. Ég var alltaf mikið í íþróttum, stundaði fimleika og fékk mína útrás þar til að vera ég sjálf. Ég var lögð í ljótt einelti sem markaði unglingsárin og mína sjálfsmynd. Við fluttum ítrekað milli staða en ég var föst í ákveðnu hegðunarmynstri sem leiddi til síendurtekinnar stríðni. Þegar maður stígur til hliðar er enn auðveldara að ýta manni aðeins lengra í burtu.

Mynd: Eyþór Árnason

Það var ekki fyrr en eftir fyrstu sambandsslitin að pabbi tók mig í gegn. Hann fékk mig til að líta inn á við og átta mig á því hver ég væri, hvernig ég hegða mér og hvaða manneskjur það eru sem skipta mig máli í lífinu. Ég var svo brotin á sál og líkama að ég var eins og sandkorn. Pabbi fékk mig til að skrifa niður spurningar á blað um mig sjálfa sem reyndist bæði þroskandi og uppbyggilegt fyrir sjálfstraustið. Ég skrifaði meðal annars niður nöfn þeirra einstaklinga sem reyndust mér slæmir í eineltinu, bæði í grunnskóla og menntaskóla. Eftir hvert nafn lokaði ég augunum og endurupplifði minningarnar og fyrirgaf þeim, opnaði svo augun og hélt áfram á næsta nafn. Þetta virkaði vel á mig, það var eins og ég hefði samþykkt það að hafa verið lögð í einelti, þetta var ákveðin hreinsun. Ég vil ekki horfa á yfirborð fólks eða skilgreina það út frá útliti, búsetustað eða samfélagsstöðu, heldur hvaða manneskju það hefur að geyma.“

Brengluð þróun breyttra mynda
Fjögur ár eru nú síðan Hugrún hóf markvist þessa sjálfsvinnu en hún segir að með þátttöku sinni í ár hafi hún loksins náð að fella grímuna. „Ég var alveg þessi stelpa sem fannst ég þurfa að bera á mig brúnkukrem til að láta mér líða vel. Ég setti stöðugt upp einhvern front sem var ekki ég en þegar ég lærði að sleppa tökunum á þessari áráttu, að reyna stöðugt að vera einhver annar en ég sjálf, fór mér loksins að líða betur. Áður fyrr vissi ég ekkert fyrir hvað ég vildi standa, en ég veit það í dag.

Mynd: Eyþór Árnason

Framkvæmdastýra keppninnar, Manuela Ósk Harðardóttir, á stóran þátt í því að hjálpa mér út úr þessu mynstri því hún sá mig setja upp þessa grímu og hamraði á því við mig að ég hætti því. Staðreyndin er nefnilega sú að ungt fólk, sérstaklega stelpur, eru að fá mjög brenglaða sýn á það hvað sé eðlilegt útlit og þá er ég að vísa í raunveruleikaheiminn á tenglanetinu. Eftir þátttöku mína í Ungfrú Ísland jókst fylgi mitt á samfélagsmiðlum til muna og enn meira eftir keppnina í ár svo það er alveg ljóst að fólki finnst gaman að fylgjast með. Samfélagsmiðlar skipta miklu máli í þessum heimi og ég legg mikið upp úr að koma eins heiðarlega fram við fylgjendur mína og mér frekast er unnt. Ég viðurkenni fúslega að í fyrstu var ég feimin að snúa myndavélinni á símanum í áttina að andlitinu og tala beint í vélina. Stundum tók ég sömu upptökuna upp aftur og aftur þangað til ég varð sátt við úkomuna en í dag er ég hætt því. Ég væri til í að sjá fleiri konur takast á við raunveruleikann frekar en að samþykkja þessa óraunhæfu staðalímynd kvenna sem ungar stelpur hafa margar í huga þegar þær leita sér að eiginleikum í fari fyrirmynda sinna. Pressan er mikil og kröfurnar oft og tíðum óraunhæfar. Það er einmitt það sem mér finnst svo flott við þessa keppni því þar koma konur fram af öllum gerðum og stærðum og skora sjálfa sig á hólm. Mér finnst ótrúlega flott að gera fjölbreytileikann meira sýnilegan og í dag get ég verið fyrirmynd í þessum efnum og sýnt minn raunveruleika án filters. Samfélagsmiðlar eru svo trikkí því þar hleypir maður fólki svo nálægt sér en velur á sama tíma alltaf hvað þú sýnir. Þá skiptir öllu máli að vera samkvæmur sjálfum sér því annars eru fylgjendur fljótir að sjá í gegnum þig.“

Mynd: Eyþór Árnason

Hugrún segir það staðreynd að samfélagsmiðlar leiki stórt hlutverk í velgengni stelpna í keppnum sem þessari þótt fjöldi fylgjenda gefi engin sérstök aukastig. „Það er mjög jákvætt að vera með stóran fylgjendahóp því það vekur spurningar hvað viðkomandi hafi fram að færa. Það hlýtur að vera spennandi einstaklingur og í kjölfarið vill fólk kynna sér viðkomandi betur. Sjálf sýni ég frá alls konar á mínum miðli, fjallgöngur, hreyfingu, mataræði, outfitt og fjölskyldulífið, mitt daglega líf.’“

Vissi ekki að kærastinn væri þekktur tónlistarmaður
Hugrún birti nýverið mynd á samfélagsmiðli sínum þar sem hún opinberaði í fyrsta skipti ástina í lífi sínu en kærastanum kynntist hún fyrir tæpum tveimur árum. „Ég vissi ekkert hver hann var, en ég sá mynd af honum með gítar á prófílnum sínum og fannst hann sætur strákur. Við spjölluðum svo saman á þræðinum þar sem hann bað um að fá að hitta mig, alveg týpískur strákur. Göngugarpurinn ég ákvað hins vegar að bjóða honum með mér í fjallgöngu svo þannig var fyrsta stefnumótið okkar. Hann sagði að þetta væri alveg nýtt fyrir sér en svona kynnist maður almennilega. Ég hafði ekki hugmynd um að hann væri þekktur tónlistarmaður fyrr en ég fletti honum upp á netinu. Ég er ekki mikið inni í tónlist og hlusta bara á útvarpið, þá er ég góð. Eftir að hafa spurt hvað hann gerði fór ég að hlusta á lögin hans sem eru auðvitað frábær. Ég sé hann samt ekki sem tónlistarmann heldur bara sem Ásgeir Trausta, kærstann minn.“

Alltaf jafn skrítið að sjá hann á sviði
Kærastann þarf vart að kynna en Ásgeir Trausti Einarsson hefur notið mikilla vinsælda síðan árið 2012 þegar platan hans, Dýrð í dauðaþögn, kom út. Hann er um þessar mundir að leggja lokahönd á nýja plötu og fullyrðir Hugrún að hann eigi eftir að stækka enn meira í kjölfarið. „Platan kemur út í byrjun næsta árs en ég er einmitt að leika í tónlistarmyndbandi við lag hans, sem kemur út fljótlega. Ég elska þetta lag, og í raun öll lögin á plötunni, hún er virkilega góð og kemur skemmtilega á óvart. Í kjölfarið mun hann svo túra um allan heim og ég fylgi honum eflaust eitthvað eftir. Það verður samt alltaf jafn skrítið að sitja í áhorfendastúkunni og horfa á hann spila, því fyrir mér er hann bara maðurinn sem stendur heima í náttfötunum og eldar morgunmatinn fyrir mig.“

Hugrún og Ásgeir. Mynd: Skjáskot af Instagram @hugrunegils

Spurð hvort parið sé duglegt að rækta gönguáhugann eftir fyrsta stefnumótið segir Hugrún svo vera. „Við löbbum mikið saman en í göngunni fæ ég mikla útrás, sérstaklega ef ég er eitthvað stressuð. Ég fæ lítið út úr því að vera í ræktarsalnum og horfa í spegilinn, ég vil frekar vera í kringum blóm og gras og steina. Það er mikil heilun fólgin í því og þar finn ég friðinn. Ég fæ til að mynda ekki nóg af því að ganga Helgafellið, þar hittir maður líka alltaf sama fólkið og er farinn að heilsa því, mjög heimilislegt.“

Gólfglíma og gervineglur fara ekki vel saman
Annað sem Hugrún nefnir að hafi hjálpað til við innri vellíðan og aukið sjálfstraust eru kynni hennar af gólfglímu. „Ég kynntist Brazilian Jiu-Jitsu fyrir algjöra tilviljun en ég sá námskeiðið auglýst á Facebook en sú hugsun rann ósjálfrátt í gegn hvort Mjölnir væri of karllægur staður fyrir stelpu eins og mig að stunda æfingar á. Sem betur fer varði þessi hugsun stutt því ég komst mjög fljótt að því að þessar æfingar hentuðu mér rosalega vel. Skemmst er frá því að segja að ég fór nánast ekki úr glímugallanum í þau þrjú ár sem ég æfði íþróttina og get hreint ekki beðið eftir að byrja aftur af fullum krafti.“

Mikilvægt að konur kunni að verja sig
Þeir sem ekki þekkja til gætu eflaust leitt að því líkur að um bardagaíþrótt sé að ræða en Hugrún segir það af og frá. „Þetta snýst allt um rétta hugsunartækni en það er líka mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér. Ég líki þessu stundum við að tefla því maður er alltaf að sirka út hvað andstæðingurinn ætlar að gera og reyna að vera skrefi á undan honum. Þessi íþrótt hefur gefið mér mikið sjálfstraust því ég veit í dag að þótt ég sé ein úti að labba í myrkri get ég alltaf varið mig. Ég er í dag með bláa beltið og æfði á móti stórum, sterkum körlum sem gátu auðveldlega notað líkamlegan styrk sinn á móti mér en þá snýst allt um að beita réttu tækninni. Sú vissa er dýrmæt og ég væri til í að sjá fleiri konur í þessari íþrótt því þetta er fyrst og fremst hugsað sem sjálfsvörn. Við stelpurnar í fegurðarkeppninni úti þurfum allar að standa fyrir einhvern málstað og hjá mér mun það vera sjálfsvörnin. Mér finnst svo mikilvægt að konur kunni að verja sig.“

Horfi ekki á stelpur út frá holdafari
Keppnin er haldin þann 6. desember næstkomandi og fer fram í Póllandi. Þótt tæpur mánuður sé til stefnu er Hugrún þegar farin að undirbúa sig þótt kjóllinn sé enn ófundinn. „Kjóllinn verður leyndarmál en ég reikna með að taka minnst fjórar ferðatöskur af fínum fatnaði með mér út. Ég verð í Póllandi í þrjár vikur og reikna með að dagarnir verði langir og strangir. Ég breyti engu hvað varðar mataræði eða hreyfingu því ég borða yfirleitt hreina fæðu og hreyfi mig alltaf mjög reglulega. Minn helsti undirbúningur felst í raun í því að bæta tímann í að farða mig á morgnana því dagarnir munu allir hefjast mjög snemma. Það skiptir miklu máli að auka færnina í að vera fljót að gera mig til fyrir langa daga þar sem förðunin þarf að geta haldist í langan tíma. Ég er farin að fylgja nokkrum af hinum keppendunum eftir á samfélagsmiðlum og þetta virðast allt mjög fínar stelpur. Ég horfi ekki á þær út frá holdafari heldur fyrir hvað þær standa, að mínu mati skiptir útlitið litlu máli. Þetta verður þó allt öðruvísi upplifun en hér heima þar sem allir þekkja alla og við urðum mjög góðar vinkonur. Þarna er þetta allt mun stærra. Þarna mun líka fara fram hæfileikakeppni sem verður áhugavert að taka þátt í. Ég sé fyrir mér að syngja því söngur er svo smekksbundinn og erfitt að meta hvað er fallegt og hvað ekki. Það er svo skemmtilegt að sjá hvaða sköpun hver og einn hefur í sér. Í sjálfu sér lít ég á þátttöku í svona keppni á sama hátt og að sækja um vinnu. Fyrir mér á maður aldrei að breyta sjálfum sér heldur hugsa, er ég tilbúin í þetta starf? Þú þarft að vera með þetta í þér því kórónan mun ekki gera neitt fyrir þig nema þú vitir hver þú ert og hvað þú stendur fyrir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leið eins og Mary Poppins

Leið eins og Mary Poppins
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kanye West ætlar í klámið

Kanye West ætlar í klámið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda