Hefur tvisvar hlotið dóm fyrir ofbeldisbrot – Kvaðst sjálfum hafa verið hótað
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Sævar Óla Helgason, fyrrverandi nefndarmann Pírata í Reykjavík í 60 daga skilorðsbundið fangelsi. Vísir greinir frá þessu. Sævar Óli er sakfelldur fyrir að hafa hótað að berja lögreglumann og móður hans í júlí 2014. Sævar Óli hefur áður hlotið dóma fyrir ofbeldisverksem áttu sér stað áður en hann gerðist varamaður borgarstjórnarflokks Pírata í Faxaflóanefnd.
Fram kemur í dómi Héraðsdóms að lögregla hafi haft afskipti af Sævari Óla á hóteli á Laugavegi þann 23.júlí 2014. Hann hafi verið verulega ölvaður. Fram kemur að eftir að Sævari Óli var vísað út af hótelinu hafi hann ítrekað gengið ógnandi að lögreglumanni. Hann var í kjölfarið handtekinn fyrir ölvun á almannafæri og fyrir að hlýða ekki tilmælum lögreglu. Segir í dómnum að á lögreglustöð hafi hann síðan hótað að að berja lögreglumanninn og móður hans.
Fram kemur í dómnum að Sævar Óli neiti sök og krefjist sýknu. Sagði hann lögreglumanninn hafa hótað sér að fyrra bragði. Þá sagðist hann hafa hótað lögreglumanninum og móður hans „kaghýðingu“, fyrst fyrir utan hótelið og síðan aftur þegar á lögreglustöð var komið.
Við yfirheyrslu daginn eftir kvaðst hann hins vegar hafa verið ölvaður og ekki hafa meint neitt með hótunum sínum. Bauðst hann einnig til að draga hótanirnar til baka gegn því skilyrði að umræddur lögreglumaður gerði slíkt hið sama.
Í júní 2015 skrifaði Sævar Óli opið bréf til móður lögreglumannsins á facebook þar sem hann kvaðst harma aðkomu hennar að málinu. Bað hann hana afsökunar á því að hafa blandað henni inn í deilurnar á milli hans og sonar hennar. Hann stóð engu að síður fastur á sök lögreglumannsins í málinu.
„Það var virkilega ljótt og slæmt af mér að gera, því auðvitað á ekki að kenna þér um þó svona illa hafi ræst úr uppeldinu á honum syni þínum,“ ritaði Sævar Óli meðal annars og þá ritaði hann á öðrum stað:
„Sumir umturnast við það að fara í lögreglubúning og sonur þinn á þar einfaldlega ekki heima.“
Sævar Óli hefur í tvígang hlotið fangelsisdóm fyrir ofbeldisbrot, árið 2005 og 2006. Árið 2005 var hann dæmdur fyrir að hafa veist að leikskólakennara, skellt henni ofan á vélarhlíf bifreiðar hans og rasskellt hana nokkrum sinnum. Hélt Sævar Óli því fram að umræddur leikskólakennari hefði lagt ólöglega fyrir innkeyrslu á milli húsa sem hefði gert það að verkum að hann átti erfitt með að aka þar inn.
Árið 2006 var hann síðan dæmdur fyrir að hafa gripið í öxl og brugðið fæti fyrir Ólaf Helga Kjartansson, þáverandi sýslumann á Selfossi. Þá hlaut hann 30 daga skilorðsbundinn fangelsisdóm árið 2012 fyrir endurtekin húsbrot og eignarspjöll við Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu.