Með stjörnur í augum í Ástralíu
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir var með stjörnur í augum þegar hún flutti inngangsræðu á ráðstefnu í Sydney í Ástralíu á dögunum. Ástæðan var að bandaríska leikkonan og kvenréttindabaráttukonan Geena Davis var meðal viðstaddra.
Þórdís Elva, sem vakið hefur mikla athygli fyrir bók sína South of Forgiveness undanfarið, greinir frá kynnum sínum af Davis á Instagram þar sem hún birtir myndir af þeim stöllum saman auk eins konar tékklista yfir hluti sem hún hafi afrekað þetta kvöld. Það fyrsta var að flytja erindi sitt í návist Davis, næsta var að gera það án þess að vitna í leiðinni linnulaust í kvikmyndina Thelmu & Louise, og loks náði hún að hrósa leikkonunni heimsþekktu fyrir frábært starf í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna með Geena Davis Institute on Gender in Media.