fbpx
Föstudagur 09.maí 2025
Fréttir

Sagan á bak við MS-13: Hættulegasta götugengi heims sem hlífir engum

Hrina óhugnanlegra morða tengjast meðlimum samtakanna – Svona urðu þau til og svona starfa þau

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 20. apríl 2017 23:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á undanförnum misserum hafa hrottaleg morð, sem tengjast alræmdum skipulögðum glæpasamtökum, vakið skelfingu margra í Bandaríkjunum. Morðin eiga það sameiginlegt að tengjast meðlimum hins alræmda götugengis, MS-13.

Nú síðast á mánudag fundust lík fjögurra karlmanna, þar á meðal þriggja unglinga, á Long Island í New York. Ljóst var að mennirnir höfðu hlotið skelfilegan dauðdaga, en líkin höfðu verið limlest áður en þau voru skilin eftir í skóglendi. Að sögn lögreglu tengdust morðin MS-13.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði, eftir að fréttir af morðunum spurðust út, að þessa auknu glæpatíðni mætti rekja til stefnu Baracks Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í innflytjendamálum.

Breska ríkisútvarpið, BBC, fjallaði nokkuð ítarlega um þessi alræmdu glæpasamtök á vef sínum í dag og velti upp þeirri spurningu hvort Trump hafi rétt fyrir sér; hvort Barack Obama og stefnu hans sé um að kenna.

Áttu að vernda aðra innflytjendur

MS-13 samtökin eiga rætur sínar að rekja til áranna í kjölfar borgarastyrjaldarinnar í El Salvador á níunda áratug liðinnar aldar. Fjölmargir íbúar El Salvador töldu hag sínum betur borgið utan landsteinanna og fluttust til Bandaríkjanna. Margir settust að í Los Angeles og nágrenni borgarinnar og var félagsskapurinn, MS-13, stofnaður til að vernda salvadorska innflytjendur fyrir þeim gengjum sem fyrir voru á svæðinu.

Starfsemi samtakanna blés út á níunda og tíunda áratug liðinnar aldar og nú eru meðlimir frá mörgum ríkjum; El Salvador, Bandaríkjunum, Hondúras, Gvatemala og Mexíkó þar á meðal og eru samtökin með starfsemi í öllum þessum löndum.

Myrtir með sveðjum

Fljótlega fór að bera á því að samtökin stunduðu glæpi og beittu skelfilegu ofbeldi til að ná sínu fram. Einstaklingar sem taldir voru óvinveittir samtökunum, eða meðlimum þeirra, voru oftar en ekki myrtir með sveðjum. Átti þetta til dæmis við um meðlimi annarra gengja í Los Angeles og nágrenni, til dæmis gengjum sem stofnuð voru af innflytjendum frá Mexíkó. BBC vísar í tölur frá FBI þess efnis að MS-13 sé með starfsemi í 46 ríkjum Bandaríkjanna.

Árið 2012 varð MS-13 þess vafasama heiðurs aðnjótandi að verða fyrsta götugengið sem komst á lista bandarískra stjórnvalda yfir alþjóðleg skipulögð glæpasamtök. Komst gengið í félagsskap með Camorra-mafíunni á Ítalíu og Yakuza-mafíunni í Japan svo dæmi séu tekin.

Inntökuskilyrðin

Í umfjöllun BBC var bent á það að meðlimir MS-13, sem sjá um endurnýjun og nýliða, sæki í ungmenni sem koma frá fátækum og brotnum fjölskyldum. Þetta séu einstaklingar sem séu tiltölulega auðveld skotmörk. Inntökuskilyrði eru þó, eins og BBC greinir frá, því nýir meðlimir geta búist við því að þola fólskulegar barsmíðar frá öðrum meðlimum. Þá eru dæmi þess að þeir þurfi að fremja glæpi, stundum morð, í nafni gengisins. Og þeir sem gerast meðlimir geta ekki kvatt félagsskapinn svo auðveldlega. Meðlimir þurfa að fá sér húðflúr með nafni samtakanna og eru af þeim sökum brennimerktir fyrir lífsstíð. Til eru dæmi um meðlimi sem hafa reynt að yfirgefa samtökin en verið myrtir.

Óvíst með fjölda

Í skýrslu sem FBI gaf út árið 2008 var það metið að meðlimir MS-13 í Bandaríkjunum væru á bilinu sex til tíu þúsund. Fjöldinn á heimsvísu er þó enn meira því en tölur um nákvæman fjölda eru nokkuð á reki, allt frá 30 þúsund meðlimum og upp í 60 þúsund. Samtökin hafa tekjur af skipulagðri glæpastarfsemi en BBC vitnar í tölur frá salvadorsku lögreglunni þar sem fram kom að áætluð velta samtakanna á ári hlaupi á 3-4 milljörðum króna. Þetta eru peningar sem meðal annars koma inn með sölu fíkniefna.

Miguel og Diego eru grunaðir um mannrán, nauðganir og morð. Þeir eru báðir meðlimir í MS-13.
Leiddir fyrir dómara Miguel og Diego eru grunaðir um mannrán, nauðganir og morð. Þeir eru báðir meðlimir í MS-13.

Mynd: © 2017 Houston Chronicle

Hvert málið á eftir öðru

Í marsmánuði var greint frá óhugnanlegu máli í New York sem varðaði tvær unglingsstúlkur sem voru myrtar með sveðju og hafnaboltakylfum. Stúlkurnar eru taldar hafa verið á gangi í úthverfi borgarinnar þegar ráðist var á þær. Fjórir meðlimir MS-13 hafa verið ákærðir vegna morðanna, en talið er að lítils háttar ósætti milli þeirra og stúlknanna hafi orðið til þess að þær hlutu þessi hörmulegu örlög. Þessu til viðbótar hafa tveir meðlimir samtakanna verið ákærðir vegna morðs á þriðja meðlimi samtakanna, sem sagður var hafa brotið reglur. Og enn eitt málið sem varðaði samtökin kom upp í marsmánuði sem varðaði tvo meðlimi MS-13 sem ákærðir voru fyrir mannrán á þremur stúlkum. Mennirnir eru sagðir hafa nauðgað stúlkunum og skotið eina þeirra til bana. Mennirnir sem ákærðir voru, Miguel Alvarez-Flores, 22 ára, og Diego Hernandez-Rivera, 18 ára, hlógu og veifuðu að myndavélum ljósmyndara þegar þeir voru leiddir fyrir dómara. Í umfjöllun BBC segir að einkunnarorð samtakanna, ef svo má segja, séu: „Drepum, nauðgum, stjórnum.“

Trump virðist hafa rangt fyrir sér

Eins og að framan greinir hafa Donald Trump, forseti Bandaríkjanna og Jeff Sessions, dómsmálaráðherra landsins, vísað ábyrgðinni á þessari auknu glæpatíðni til Baracks Obama, fyrirrennara Trumps í embætti. Vilja þeir meina að dyrnar hafi staðið opnar fyrir innflytjendum sem gátu óhindrað, eða því sem næst, sest að og komið sér fyrir í Bandaríkjunum.

Málið er þó ekki alveg svo einfalt, ef marka má umfjöllun BBC, því samtökin voru farin að láta til sín taka löngu áður en Barack Obama varð forseti. Strax snemma á tíunda áratugnum voru bandarískar löggæslustofnanir farnar að hafa áhyggjur af uppgangi samtakanna og sérstök deild innan FBI var stofnuð til að fylgjast með og hafa eftirlit með samtökunum árið 1994.

„Það má í raun segja að mesta aukningin (í endurnýjun samtakanna) hafi komið þegar Bush og Cheney stjórnuðu landinu. Þeir lögðu mikla áherslu á að uppræta glæpi og fangelsin yfirfylltust. Á sama tíma var skorið niður fé til að hjálpa þessu föngum að fóta sig að nýju út í samfélaginu,“ segir Fulton T. Armstrog, fulltrúi Center for Latin American and Latino Studies, við American University.

„Ég hef ekki séð neinar sannanir fyrir því að eitthvað við stjórnarfar Obama, eða ríkisstjórnar hans, hafi orðið til þess að vegur þessara skipulögðu glæpasamtaka hafi aukist,“ segir Ion Grillo sem meðal annars hefur skrifað bækur um skipulagða glæpastarfsemi í Bandaríkjunum. Þvert á móti hafi Barack Obama lagt á það ríka áherslu að innflytjendum með tengsl við skipulögð glæpasamtök skyldi vísað úr landi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Jón leggur til róttæka breytingu á frídögum – „Að mínu mati er þetta fyrirkomulag óheppilegt“

Jón leggur til róttæka breytingu á frídögum – „Að mínu mati er þetta fyrirkomulag óheppilegt“
Fréttir
Í gær

Þorvaldur Lúðvík íhugar réttarstöðu sína eftir Kastljósið í gær – „Ég hefði engu breytt eða gert öðruvísi“

Þorvaldur Lúðvík íhugar réttarstöðu sína eftir Kastljósið í gær – „Ég hefði engu breytt eða gert öðruvísi“
Fréttir
Í gær

Skagfirðingur á níræðisaldri keyrði fullur og lét sig hverfa

Skagfirðingur á níræðisaldri keyrði fullur og lét sig hverfa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spæjarastofa Jóns Óttars sökuð um að nýta stolin gögn frá lögreglu og saksóknara til að selja þjónustu sína

Spæjarastofa Jóns Óttars sökuð um að nýta stolin gögn frá lögreglu og saksóknara til að selja þjónustu sína