Mevlüt Çavuşoğlu, utanríkisráðherra Tyrklands, er ósáttur með þá meðferð sem landsliðið í fótbolta, fékk í Leifsstöð í gær. Tyrkir komu til landsins í gær fyrir landsleik við Ísland, í undankeppni EM, sem fram fer á morgun.
Þeir þurftu að bíða lengi á flugvellinum, liðið flaug frá Konya og þurfti að fara vel yfir öll vegabréf og slíkt. Mbl segir að flugvölurinn í Konya sé ekki vottaður, því hafi þurft meira eftirlit en hefði liðið komið frá Istanbul.
Þá eru Tyrkir reiðir eftir að þvottabursti birtist í Leifsstöð. Emre Belözoglu, reyndur leikmaður Tyrklands var að svara fréttamönnum, þegar „íslenskur“ maður mætti með þvottabursta og fór að spyrja Emre.
Erik Hamren, landsliðsþjálfari Íslands var spurður um málið í dag. ,,Ég einbeit mér að leiknum, að fótbolta. Þú verður að ræða við fólkið sem ræður þessu,“ sagði Hamren.
Aron Einar Gunnarsson, var einnig spurður um málið. ,,Ég hef voða lítið um þetta að segja, ég man þegar við komum frá Konya árið 2015. Hvað við þurftum að fara í gegnum, eftirlit og slíkt. Það var meira en venjulega, vegna þess að flugvöllurinn þar er ekki vottaður. Ég veit voða lítið um þetta bursta mál, ég hef voðalega lítið um það að segja.“