Mevlüt Çavuşoğlu, utanríkisráðherra Tyrklands, er ósáttur með þá meðferð sem landsliðið í fótbolta, fékk í Leifsstöð í gær.
Tyrkir komu til landsins í gær fyrir landsleik við Ísland, í undankeppni EM, sem fram fer á morgun.
Þeir þurftu að bíða lengi á flugvellinum, liðið flaug frá Konya og þurfti að fara vel yfir öll vegabréf og slíkt. Mbl segir að flugvölurinn í Konya sé ekki vottaður, því hafi þurft meira eftirlit en hefði liðið komið frá Istanbul.
Þá eru Tyrkir reiðir eftir að þvottabursti birtist í Leifsstöð. Emre Belözoglu, reyndur leikmaður Tyrklands var að svara fréttamönnum, þegar „íslenskur“ maður mætti með þvottabursta og fór að spyrja Emre.
Tyrkir líta á þetta sem mikla niðurlægingu, þeir héldu lengi vel að þetta væri íslenskur fréttamaður. Svo er ekki, og ekki er vita hvort þessi maður sé í raun frá Íslandi.
Mevlüt Çavuşoğlu, utanríkisráðherra Tyrklands, segir í færslu sinni á Twitter að meðferðin á landsliðinu sé óásættanleg, bæði af diplómatískum ástæðum og mannréttindum.