Jón Daði Böðvarsson, landsliðsmaður, er mættur til æfinga fyrir leiki gegn Albaníu og Tyrklandi í undankeppni EM.
Jón Daði hefur þurft að glíma við erfið meiðsli á þessu tímabili en hann spilaði lítið með Reading á þessu ári.
Undanfarnar vikur hefur Jón Daði verið á Selfossi að koma sér í form en hann hefur aldrei áður farið í gegnum svona meiðslavandræði.
,,Standið er mjög gott. Ég náði síðustu æfingavikunni í Reading úti með liðinu. Það var svolítið týpískt að maður færi beint í frí eftir meiðslin,“ sagði Jón Daði.
,,Landsliðið vildi að ég héldi áfram að halda mér í standi og það var alltaf markmiðið. Maður var bara að æfa á Selfossi með Gunnari Borgþórssyni og svona, það er mjög fínt.“
,,Hann lét mig ekki í friði, það voru engin leiðindi en hann var mjög góður með mig en drap mig líka á köflum.“
,,Þetta var nýtt fyrir mér því ég hef ekki upplifað það að vera svona mikið meiddur á ferlinum svo þetta eru ákveðin tímamót að maður gangi í gegnum þetta núna.“
,,Ég er 27 ára gamall, það er ekki eins og maður sé eldgamall þannig þetta var nýtt fyrir mér að lenda í svona álagsmeiðslum hér og þar. Þetta er bara hundleiðinlegt. Manni líður bara eins og manni sé useless með sjúkraþjálfaranum og svo eru allir hinir á vellinum.“
,,Maður byrjaði mjög vel, var með sjálfstraust og var með momentum en svo gerist þetta. Maður er að fara á völlinn aftur og reyna að komast sem fyrst á völlinn en það var ekki rétt ákvörðun, maður var ekki tilbúinn almennilega og meiðist aftur. Maður var í kappi við tímann.“