,,Ég held að þetta sé besta tímabil mitt í úrvalsdeildinni,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, skærasta stjarna Everton og íslenska landsliðsins, við 433.is í dag. Gylfi er mættur í landsleikina mikilvægu, gegn Albaníu og Tyrklandi.
Ísland mætir Albaníu í undankeppni EM, á laugardag. Svo fylgir annar heimaleikur gegn Tyrklandi, í næstu viku.
,,Það gekk nokkuð vel með Everton, við enduðum tímabilið sem lið, mjög vel. Það var kafli í kringum Liverpool leikinn, úti. Misstum af lestinni.“
Tímabilið er langt á Englandi, sérstaklega fyrir þá sem tóku þátt í HM síðasta sumar og eru í landsleikjum þegar frí er í deildinni. Gylfi var að koma úr góðu fríi.
,,Ég fór í golf í 10-11 daga, til Bandaríkjanna. Ég tók því aðallega rólega, ég kíkti í ræktina og var að synda. Ég hef æft með landsliðinu um nokkurt skeið núna.“
,,Ég fann fyrir þreytu í febrúar eða mars, maður er byrjaður að finna fyrir því þá. Það tekur á að spila flesta leiki, þegar strákarnir eru að fá frí, þá er maður í landsleikjum. Maður finnur fyrir þreytu, en heldur sér gangandi, það var kærkomið að fá 10-12 daga í afslöppun.“
Landsliðið ætlar sér sex stig í þessu verkefni, það er nánast nauðsynlegt til að eiga góða möguleika á EM sæti.
,,Allt annað en sex stig eru vonbrigði, það er bara svoleiðis. Þetta er það snemma í riðlinum, ef við náum í sex stig núna þá lítur þetta vel út. Ef úrslitin fara á annan veg, þá verður þetta erfitt.“
Viðtalið er í heild hér að neðan.