Ræðir um erfið persónuleg mál við Ragnhildi Steinunni í Ísþjóðinni.
Á dögunum skrifaði tónlistarkonan Sara Pétursdóttir, betur þekkt sem Glowie, undir samning við útgáfurisann Columbia í London. Um tímamótasamning er að ræða fyrir Söru sem hefur svo sannarlega slegið í gegn hérlendis undanfarin ár. Sú velgengni fór ekki framhjá Columbia sem mun nú freista þess að koma Glowie á framfæri á alþjóðlegum vettvangi.
Í tilefni af því settist Sara niður með sjónvarpskonunni Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur og ræddi við hana um tónlistina, boðskapinn sem hún vill koma á framfæri auk annarra persónulegri mála. Meðal annars spurði Ragnhildur Steinunn hana út í þöggunarbyltinguna en hún veitti því eftirtekt að Sara tók þátt í henni á samfélagsmiðlum. Upplýsti þá söngkonan um að hún hefði tvívegis orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af sama aðila.
„Já, þetta var eitthvað sem gerðist á tíma þegar ég var rosalega þung og átti rosalega erfitt í byrjun framhaldsskólaáranna. Það var í tvö skipti sem að ég varð fyrir kynferðislegri misnotkun, segir Sara. Hún segist ekki hafa áttað sig á því að um misnotkun var að ræða fyrr en töluvert síðar. „Það tók talsverðan tíma að átta sig á því hvað þetta var og hversu slæmt þetta var. Að viðurkenna að þetta er ekkert mér að kenna þótt að þetta hafi gerst og að ég hafi getað gert eitthvað í því. Aðstæðurnar voru þannig að hinn aðilinn náði einhvern veginn stjórn á mér,“ segir tónlistarkonan unga.
Að hennar sögn leið henni mjög illa eftir atvikið og sérstaklega þegar það gerðist í annað sinn. „Ég sagði engum frá af því að ég vissi að þetta væri misnotkun,“ segir Sara.
Þátturinn um Glowie er á dagskrá RÚV á sunnudagskvöldið.