fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Kolbrún segir að í hugarheimi Sigmundar Davíðs virðist alltaf vera nægt rými fyrir samsæriskenningar

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 29. apríl 2019 07:50

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Klaustursmálið svokallað er ekki alveg gleymt og að minnsta kosti hafa Klaustursþingmennirnir svonefndu ekki gleymt því. Þeir koma fram á sjónarsviðið öðru hverju með nýjar hugmyndir og samsæriskenningar um þátt Báru Halldórsdóttur í málinu. Þetta er viðfangsefni Kolbrúnar Bergþórsdóttur í pistli í Fréttablaðinu í dag en hann skrifar hún undir fyrirsögninni „Svívirða“.

„Aldrei skyldi vanmeta getu einstaklinga til að verða sér til skammar. Einmitt þegar vel meinandi sálir stóðu í þeirri trú að Klaustursþingmenn hefðu ákveðið að hlífa þjóðinni við frekari upphlaupum og halda sér til hlés, þá ákváðu þeir að blása til enn einnar sóknarinnar.”

Segir Kolbrún í upphafi pistilsins og heldur áfram:

„Hér eru á ferð þingmenn sem sannarlega eru ekki uppiskroppa með hugmyndir þegar kemur að því að réttlæta sjálfa sig í máli þar sem engin réttlæting finnst – önnur en sú að þeir voru blindfullir. Nýjasta útspilið var að krefjast upplýsinga um greiðslur inn á bankareikning Báru Halldórsdóttur. Þetta gerðu þeir sennilega í þeirri von að það opinberaðist fyrir alþjóð að einhverjir af hinum mörgu andstæðingum Miðflokksins, sem þingmennirnir telja hafa hreiðrað um sig í hverju horni, hafi gert Báru út til að njósna um þá á bar og greitt henni vel fyrir.“

Segir Kolbrún og bætir við að þetta hljómi eins og atburðarás í spæjaramynd en þar sé þó sá munur á að í þeim fái njósnarinn greitt í reiðufé því auðvelt sé að rekja bankafærslur. Hún víkur síðan að langlundargeði Báru:

„Bára hefur greinilega mikið langlundargeð því um leið og fréttist af kröfu þingmannanna opnaði hún heimilisbókhald sitt. Vitanlega sjást þar engar grunsamlegar greiðslur frá pólitískum andstæðingum Miðflokksins. Einu upplýsingarnar sem má greina þar eru þær sem allir vita af, semsagt að það er ekki auðvelt að eiga í sig og á verandi öryrki á Íslandi.“

Segir hún og bætir við að Klaustursþingmönnunum standi vísast á sama um það.

„Sjálfsagt telja þeir nú að greiðslur til Báru hafi einmitt farið fram eins og í spæjaramyndunum, henni hafi verið afhent þykkt umslag fyrir framlag sitt til njósnastarfsemi. Af hyggjuviti sínu hljóta þeir að álykta að sú gjörð hafi farið fram á afviknum stað og því ekki náðst á myndband, sem er vissulega óheppilegt fyrir þá. Næsta skref hlýtur að vera að rannsaka síma Báru og lesa þau sms-skilaboð sem hún hefur sent og fengið, ásamt því að kanna í hverja hún hringdi og hverjir hringdu í hana.“

Segir Kolbrún og bætir við að margt sé fáránlegt í máli Klaustursþingmannanna:

„Það er ótalmargt fáránlegt í máli Klaustursþingmanna og með því óskiljanlegasta er að enginn þingmannanna fjögurra skuli hafa skynsemi til að stíga fram og segja hátt og snjallt við félaga sína: Nú er nóg komið! Hér með hættum við öllum samsæriskenningum, tökum ábyrgð og hneigjum höfuð okkar í skömm. Enginn þingmannanna hefur brugðist við á þennan hátt. Einhver þeirra hlýtur samt að búa yfir nægri skynsemi til að átta sig á því að atlögur þeirra að Báru eru svívirða. Samt er haldið áfram eins og ekkert sé. Ástæðan hlýtur að vera sú að einungis ein rödd er ráðandi í Miðflokknum, rödd Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, en í hugarheimi hans virðist alltaf nægt rými fyrir samsæriskenningar.“

Segir Kolbrún og bætir við að hinir þingmennirnir fylgi Sigmundi Davíð í blindri hollustu í þessari forkastanlegu vegferð þar sem spjótunum er beint að öryrkja.

„Er virkilega enginn réttlátur í nánasta umhverfi þessara þingmanna sem er fær um að leiða þeim fyrir sjónir hversu fyrirlitleg aðför þeirra að Báru Halldórsdóttur er?“

Spyr Kolbrún að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Thomas Möller skrifar: Ísland á heima í ESB

Thomas Möller skrifar: Ísland á heima í ESB
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stálin mættust stinn í gær – „Niðurstaðan af hvoru tveggja er að borgin er stjórnlaus“

Stálin mættust stinn í gær – „Niðurstaðan af hvoru tveggja er að borgin er stjórnlaus“