Brjánn, faðir Birnu, segir þau mjög náin – Hafa búið saman í tvö ár – Skilar sér alltaf heim
„Maður býst bara við hinu versta,“ segir Brjánn Guðjónsson, faðir hinnar tvítugu Birnu Brjánsdóttur. Í samtali við blaðamann DV segir Brjánn ekki hægt að lýsa því sem farið hefur í gegnum hugann undanfarna daga. Lítið sé hægt að gera annað en að bíða eftir fréttum og í raun hafi hann og fjölskyldan ekki annað haldreipi en vonina.
Lögreglan virðist á algjörum byrjunarreit í leitinni að Birnu, sem sást síðast á gangi upp Laugaveg klukkan 05.35 snemma á laugardagsmorgun. Engar vísbendingar hafa borist lögreglunni sem varpað geta ljósi á ferðir hennar eftir umræddan tíma en fyrir liggur þó að einhver slökkti á síma hennar sem virðist hafa verið í bíl, í námunda við Hafnarfjörð, skömmu síðar.
„Ég er mestmegnis búinn að vera hérna heima á meðan lögreglan hefur verið hér eins og grár köttur í gær (sunnudag) og í dag (mánudag). En ég veit af því að það er fólk að leita að henni,“ segir Brjánn, sem jafnframt vill koma á framfæri þökkum til lögreglu og björgunarsveitarfólks sem tekið hefur þátt í leitinni að Birnu. Þá tekur hann undir það að magnað sé að horfa upp á velvilja og samhug ókunnugs fólks sem lagt hefur leitinni lið.
„Einar og Brynjar, tveir strákar sem eru miklir tölvugúrúar, settu sig til dæmis í samband við mömmu Birnu. Þetta eru ókunnugir strákar utan úr bæ sem komu hingað í gær og voru að reyna að finna símann. Mér skilst líka að það hafi verið bláókunnugt fólk sem stofnaði leitarsíðuna á Facebook.“
Birna hefur búið í Bakkahverfinu hjá pabba sínum undanfarin tvö ár. Hún hætti með kærastanum sínum í haust og er búin að vera að vinna í Hagkaup.
„Hún flutti til mín þegar hún varð sjálfráða og við búum hérna saman, við tvö og kötturinn. Við erum rosalega náin og sambúðin er frábær. Hún er mikil pabbastelpa, hún Birna. Hún er pabbastelpa og ég er Birnupabbi.“
Móðir Birnu og vinkonur hafa tekið fram við fjölmiðla að það sé afar ólíkt henni að láta ekki vita af sér. Yfirleitt sé alltaf hægt að ná í hana. Þá hefur komið fram að Birna sé ekki í óreglu. Þetta tekur Brjánn undir.
„Hún er mikið með vinkonum sínum, þær fara út og rúnta og þess háttar en hún er alls ekki mikið á einhverjum stífum fylliríum. Stundum hefur hún gist hjá vinkonum sínum en yfirleitt hefur hún komið heim edrú. Hún hefur farið út á kvöldin og verið með vinum sínum og komið heim klukkan tvö, þrjú um nóttina,“ segir Brjánn.
Það hefði þá mátt ætla að það yrði eins aðfaranótt laugardags?
„Já, já, ég átti von á henni um morguninn. Hún hefur verið úti frameftir nóttu áður en hún hefur alltaf skilað sér. Hún kemur sér alltaf heim.“
Á blaðamannafundi sem lögreglan hélt síðdegis í gær (mánudag) var lögregla spurð að því hvort eitthvað benti til þess að Birna hefði framið sjálfsvíg. Bent var á að á samfélagsmiðlinum Facebook væru myndir sem bentu til þess að henni liði ekki vel. Lögreglan svaraði því til að í svona málum væri ekkert útilokað en bætti þó við: „Við höfum rætt við fjölskyldu hennar sem segir okkur að hún hafi svartan húmor. Það sem fram komi í þessu skyni sé því marki brennt.“ Þetta sagði Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn við spurningu þess efnis.
Á Facebook-síðu Birnu má sjá fjölmörg „meme“ eða myndir sem samsettar eru myndum og texta, sem gætu bent til vanlíðunar eða þess að hún hafi svartan húmor. Þar eru sjálfsvígshugsanir og/eða þunglyndi haft í flimtingum. Grímur sagði að rætt hefði verið um það bil tólf vini og aðstandendur Birnu og þeim hafi borið saman um að ekkert sérstakt amaði að.
Sjálfur hefur Brjánn hvergi skynjað vanlíðan hjá dóttur sinni.
„Ég gat alls ekki merkt það. Það hefur þá algjörlega farið fram hjá mér.
En hún er mjög mikið að setja svokallað „meme“ inn á Facebook, einhver svona húmor sem ég skil ekkert í. Einhver svona húmor sem ég fatta ekki.“
Brjánn segir varnarleysið mikið í þessum skelfilegu aðstæðum. „Það verður að halda í vonina. Ég hef ekkert annað.“
## Bílstjórinn ekki komið fram
Á blaðamannafundinum í gær var spurt hvort upptökur á öryggismyndavélum bentu til þess að Birna hefði verið undir áhrifum áfengis og svaraði Grímur því játandi. Þess hefðu sést merki. Með hjálp öryggismyndavéla var hægt að fylgjast með ferðum hennar frá skemmtistaðnum Húrra í Austurstræti, upp Bankastræti og Laugaveg. Hún sást ekki í myndavélinni sem beinist að Laugavegi 31.
Ekki er talið að hún hafi gengið lengra upp Laugaveginn en að hún hafi annað hvort farið upp í bíl á þessum kafla eða gengið niður Vatnsstíg. Síðan hefur ekkert til hennar spurst en ekkert bendir til þess að henni hafi verið veitt eftirför fótgangandi.
Lögreglan hefur kallað eftir því að ökumaður rauðrar Kia-bifreiðar, sem ók upp Laugaveginn á sama tíma og Birna gekk hann, gefi sig fram. Ökumaður þeirrar bifreiðar kunni að hafa orðið vitni að einhverju. Á blaðamannafundinum kom fram að sú umleitan hafi engan árangur borið. Bílnúmer bílsins sést ekki af upptökum öryggismyndavéla.
RÚV hefur eftir Jóni Trausta Ólafssyni, framkvæmdastjóra Öskju, sem flytur inn Kia-bíla, að um 240 rauðir Kia Rio-bílar séu á landinu. Af þeirri undirgerð sem myndbandið virðist sýna, séu um 150 ökutæki.
Vera kann að síminn hafi verið í þessari bifreið þegar á honum var slökkt fáeinum mínútum eftir að Birna sást á Laugavegi. Í máli lögreglu kom fram að farsímagögn gæfu til kynna að síminn hefði ekki orðið rafmagnslaus. Einhver hefði slökkt á honum með handafli. Fram kom að leitin beindist að Hafnarfirði eftir stefnugreiningu lögreglunnar á símsendum sem námu merki úr síma Birnu. Síminn hafi farið hratt á milli senda sem benti til þess að hann hefði verið á ferð í bíl. Lögreglan er að vinna í því að fá heimild til að samkeyra farsímagögn til að hægt sé að athuga hvaða símar hafa sent frá sér gögn á sama tíma og stað og sími Birnu.