fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Kynning

Saga forlag: Íslendingasögurnar í glæsilegri viðhafnarútgáfu

Kynning
Jóhanna María Einarsdóttir
Föstudaginn 14. desember 2018 15:13

Fyrrverandi forseti Íslands Frú Vigdís Finnbogadóttir er verndari útgáfunnar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjá Saga forlagi er komin út ný og glæsileg heildarútgáfa Íslendingasagna og Íslendingaþátta í fimm bindum í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands.

Á undanförnum áratugum hefur Saga forlag staðið fyrir heildarútgáfu sagnanna á fjórum tungumálum. Ný ensk þýðing kom út árið 1997 og í kjölfarið var ráðist í það stórvirki að gefa sögurnar út á dönsku, norsku og sænsku, einnig í nýjum þýðingum, og komu þær út árið 2014. Þessar útgáfur hafa margfaldað útbreiðslu sagnanna og borið hróður þeirra víða um álfur. Að þessu átaki loknu þótti Jóhanni Sigurðssyni útgefanda orðið tímabært og viðeigandi að sögurnar birtust nú í ferskum og aðlaðandi búningi fyrir nýjar kynslóðir lesenda hér á landi. Fullveldisafmælið var kærkomið tilefni til að hrinda því áformi í framkvæmd, enda gegndu Íslendingasögur lykilhlutverki í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Saga forlag
Útgáfuathöfn í Alþingishúsin 17. júní síðastliðinn. Frú Vigdís Finnbogadóttir og núverandi forseti Guðni Th. Jóhannesson halda saman á hinni nýju glæsilegu heildarútgáfu okkar af Íslendingasögunum. Það var einkar viðeigandi og ánægjulegt að sjá þau halda saman á þjóðararfinum okkar.

 

Rækileg endurskoðun og nýjir formálar

Ritstjórar eru Aðalsteinn Eyþórsson, Bragi Halldórsson, Jón Torfason, Sverrir Tómasson og Örnólfur Thorsson, en þeir fjórir síðastnefndu ritstýrðu einnig útgáfu Íslendingasagna sem kom út 1987. Þeir hafa farið yfir allan textann, lagfært villur og misræmi og í nokkrum tilvikum endurskoðað textann með hliðsjón af síðari rannsóknum eða útgáfum. Sögurnar eru prentaðar á nútímastafsetningu og mikil rækt lögð í ýmiss konar skýringarefni til að greiða lesendum leið um sagnaheiminn.

Rækilegar skýringar fylgja öllum vísum sem koma fyrir í textunum og sögunum fylgja m.a. nýir formálar sem varpa ljósi á helstu einkenni sagnanna og flokkun þeirra, fjallað er sérstaklega um sérkenni Íslendingaþátta, kveðskap í sögunum og sérstöðu Vínlandssagnanna svokölluðu. Í útgáfunni er orðasafn með skýringum um 6000 orða og orðasambanda, nafnaskrá þeirra persóna sem koma við fleiri sögur en eina, kort sem sýna sögusvið sagnanna og stuttar skýringargreinar með myndum sem varpa ljósi á híbýli, skipakost og helstu vopn og verjur kappanna. Þá er þar að finna svonefndar sagnalykil þar sem tekin eru saman efnisatriði sem koma fyrir í mörgum sögum, t.a.m. bardagar og víg, hólmgöngur, draugagangur, leikir og skemmtanir, draumar o.fl., og vísað í þá kafla í sögum og þáttum þar sem slíkt er að finna. Loks er ber að geta myndlýsinga dönsku listakonunnar Karin Birgitte Lund, en 40 litprentaðar teikningar hennar prýða þessa útgáfu.

Saga forlag
Glæsileg viðhafnarútgáfa.

 

Sögurnar eru sígild meistaraverk

Íslendingasögurnar eru hiklaust mikilsverðasta framlag Íslendinga til heimsbókmenntanna og þeim eru iðulega jafnað til hátinda í sögu vestrænna bókmennta á borð kviður Hómers og leikrit Shakespeares. Þær eru sígild listaverk sem virðast alltaf eiga erindi við samtímann. Ef við horfum til ritunartímans eru Íslendingasögur einstakar í evrópskum miðaldabókmenntum, þær fjalla ekki um upphafnar hetjur á stalli eða goðsögulegar persónur, heldur venjulegt fólk sem er að skapa nýtt samfélag í nýju landi, hetjur í tilvistarkreppu, skáld í ástarsorg, myrkfælna útlaga, örlyndar konur og ofláta; fólk af holdi og blóði.

 

Hluti af þjóðarvitundinni

Þessar sögur, atburðir þeirra og persónur, hafa fylgt Íslendingum um aldir og eru löngu orðnar hluti af þjóðarvitundinni. Sögurnar kveikja metnað í brjósti fólks fyrir sögustöðum í heimabyggð og vekja landið til nýs lífs þegar ferðast er um sagnaslóðir. Að auki gegna Íslendingasögur mikilvægu hlutverki í baráttunni fyrir varðveislu og viðgangi íslenskrar tungu, lestur þeirra auðgar orðaforða og styrkir málvitund en í þeim efnum þarf að sækja fram, nú þegar rannsóknir benda til að bóklestur sé á undanhaldi og að íslenskan eigi í vök að verjast í málheimi unga fólksins.

 

Aðgengilegar fyrir nýja kynslóð

Íslendingasögur hafa verið mikilvægt sameiningartákn þjóðarinnar og undirstaða sjálfsvirðingar Íslendinga. Þær voru hluti af sjálfstæðisbaráttunni, sönnun þess að við værum sérstök þjóð með sérstæða menningu sem verðskuldaði að standa á eigin fótum. Það er því vel við hæfi að fagna aldarafmæli fullveldis Íslands með nýrri útgáfu sem gerir sögurnar enn á ný aðgengilegar fyrir nýja kynslóð, svo þessi sagnasjóður verði áfram veganesti okkar inn í nýja öld.

Útgáfan fæst hjá Saga Forlagi og í öllum betri bókabúðum landsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum