fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Vilhjálmur tekur Framsókn til bæna: „Allt svikið enn og aftur!“ – Rassskelltir svo fast að það nánast blæðir

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 13. desember 2018 08:51

Vilhjálmur Birgisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er með ólíkindum hvernig Sjálfstæðisflokkurinn tekur þingmenn og ráðherra framsóknarmanna enn og aftur á lærið og rassskellir þá svo um munar,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og 1. varaforseti ASÍ, í pistli á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.

Í pistlinum vandar Vilhjálmur Framsóknarflokknum – og raunar Sjálfstæðisflokknum einnig – ekki kveðjurnar og segir hann Framsóknarflokkinn sérstaklega svíkja kosningaloforð. Það hafi ekki bara gerst einu sinni heldur ítrekað.

Sigurinn 2013

„Af hverju segi ég þetta? Byrjum á stjórnarsamstarfi framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins árið 2013, en þá var aðalkosningarloforð framsóknarmanna, afnám verðtryggingar og munum að flokkurinn vann stórsigur vegna þessa loforðs árið 2013. Ástæðan var einföld, alþýðan og heimilin öskruðu á afnám verðtryggingar, enda hafði verðtryggingin fórnað þúsundum fjölskyldna á blóðugu altari verðtryggingar í kjölfar hrunsins.“

Vilhjálmur rifjar svo upp að skipaður hafi verið sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar. Niðurstöðum hans var skilað í ársbyrjun 2014 og niðurstaðan verið á þá leið að banna þyrfti 40 ára verðtryggð lán tafarlaust. Síðan hafi verið lagt til að afnema verðtryggingu að öllu leyti árið 2016.

„Allt svikið, hvert og eitt einasta atriði og Sjálfstæðisflokkurinn átti það algjörlega skuldlaust. Mig grunar að þingmenn framsóknarmanna hafi ekki getað tyllt sér í þingsætin sín vegna verkja í afturendanum eftir þessa rassskellingu sjálfstæðismanna árið 2014.“

Svik og niðurlæging

Vilhjálmur heldur svo áfram og segir að þrátt fyrir „þessi svik og niðurlægingu sem Framsókn varð fyrir af hálfu Sjálfstæðismanna“ hafi flokkurinn ákveðið að fara aftur í samstarf með Sjálfstæðismönnum og VG eftir kosningarnar 2017.

Vilhjálmur rifjar svo upp kosningaloforð flokksins fyrir þær kosningar.

„Í fyrsta lagi átti að kalla að endurskipuleggja fjármálakerfið með hagsmuni neytenda og heimila að leiðarljósi.

Í öðru lagi átti að afnema verðtryggingu og taka hressilega á okurvöxtum fjármálakerfisins.

Í þriðja lagi átti að koma á fót samfélagsbanka.

Í fjórða lagi átti að setja á laggirnar svokallaða svissneskaleið sem gæfi ungu fólki kost á því að nota samtryggingarhluta sinn í lífeyrissjóðunum til niðurgreiðslu á fasteignalánum og til uppsöfnunar á útborgun til kaupa á fyrstu eign.“

Hvítbókin ótrúleg vonbrigði

Þessi fjögur atriði sem talin eru upp hér að ofan segir Vilhjálmur að hafi verið efst á stefnuskránni hjá Framsóknarflokknum og eftir myndun ríkisstjórnar hafi þingmenn flokksins fullyrt við flokksráð hans og kjósendur að þessi atriði væru í stjórnarsáttmála. Þá hafi verið bent á „Hvítbók“ um fjármálakerfið sem myndi taka á þessum atriðum.

„Núna er þessi Hvítbók um fjármálakerfið komin út og enn og aftur skella sjálfstæðismenn þingmönnum og ráðherrum framsóknarflokksins á lærið og rassskella þá svo fast núna að það nánast blæðir. Ég vil taka það fram að ég hef beðið spenntur eftir þessari Hvítbók, en þvílík vonbrigði!“

Vilhjálmur segir að ekki eitt einasta atriði af kosningaloforðum Framsóknarmanna sé inni í Hvítbókinni. Ekki um afnám verðtryggingar, að taka skuli á okurvöxtum, um endurskipulagningu á fjármálakerfinu með hagsmuni neytenda að leiðarljósi, ekkert um svissnesku leiðina fyrir ungt fólk og engar hugmyndir um samfélagsbanka. „Allt svikið enn og aftur!,“ segir Vilhjálmur.

Hefur enn tækifæri til að breyta

„Ég verð að spyrja, er það boðlegt að framsóknarflokkurinn komi kosningar eftir kosningar og lofi og lofi íslenskri alþýðu og íslenskum heimilum að nú verði staðið við stóru-kosningarloforðin þar sem hagsmunir neytenda og heimila verði teknir framyfir hagsmuni fjármálaelítunnar? Nei segi ég, og flokkur sem ástundar svoleiðis vinnubrögð gagnvart sínum kjósendum aftur og aftur á ekki að hafa dagskrárvald á Alþingi!“

Vilhjálmur segir að Framsóknarflokkurinn hafi enn tækifæri til að standa við kosningaloforð sín sem lúta að því að taka stöðu með alþýðunni og heimilum landsins. Þá hafi flokkurinn enn tækifæri til að „láta Sjálfstæðisflokkinn draga sig á asnaeyrunum enn og aftur í skefjalausri sérhagsmunagæslu fyrir hina ríku og fjármálaelítu þessa lands!“

Vilhjálmur segist að lokum skora á þingmenn og ráðherra Framsóknarflokks að standa í lappirnar og láta „ofbeldi“ Sjálfstæðismanna á kosningaloforð flokksins ekki átölulaust stundinni lengur.

„Munið þingmenn og ráðherrar framsóknarflokksins að það koma aftur kosningar og mér að það algjörlega til efs að þið fáið aftur tækifæri til að svíkja alþýðuna og heimilin í þriðju alþingiskosningunum í röð! Eitt er víst að nýja verkalýðshreyfingin mun styðja ykkur í að koma þessum kosningarloforðum ykkar í gegn ef þið yfir höfuð meinið eitthvað með þessum loforðum ykkar!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður