Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins deilir eldri mynd af Lækjargötu, frá þeim tíma sem Gamli lækurinn sem liggur frá norðurenda Tjarnarinnar og niður á höfn og Lækjargata er kennd við. Í nokkur skipti á síðustu árum hefur verið rætt um að opna lækinn á nýjan leik en hann hefur lengi legið neðanjarðar í sínum gamla farvegi. Gæti hann orðið mikil prýði fyrir miðborgina, eða svo er alla vega skoðun margra. Marta spyr:
„Væri ekki tilvalið að opna gamla lækinn sem Lækjargata dregur nafn sitt af?“
Fjölmargir taka þátt í þeim umræðum, þar á meðal Egill Helgason sem segir: „Jú, þetta gæti verið mjög skemmtilegt. Fólk dregst að rennandi vatni. Vonandi í einhverri framtíð verður hægt að leggja Lækjargötuna af sem þá bílagötu sem hún er. Segi ég – sem fer hana oft á dag og bý innan við hundrað metra frá læknum.“
Björn Ingi Hrafnsson fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, en nú eigandi og ritstjóri Viljans, tjáir sig einnig í þræðinum og bendir á að árið 2006 þegar hann sat í borgarstjórn hefði komið til tals að opna lækinn. Þar skrifaði Björn:
„Gamli lækurinn hefur lengi legið neðanjarðar í sínum gamla farvegi, en margir hafa bent á að skemmtilegt væri að opna hann á nýjan leik og fá þá aftur í ljós hina gömlu götumynd miðborgar Reykjavíkur. Þetta hefur vitaskuld verið gert víða erlendis með góðum árangri þar sem lækir og síki eru órjúfanlegur hluti af borgarmynd margra þekktustu borga í heimi.“
En hvað segja lesendur um mynd dagsins, á að opna Gamla lækinn á ný?