

„Burtséð frá því að hugsa eða hugsa ekki um hvort mér liði illa, virðist það ekki hafa hvarflað að þeim að ég myndi segja einhverjum frá,“ segir Aníta Briem leikkona. Í forsíðuviðtali við tímaritið MAN greinir Aníta meðal annars frá reynslu sinni af Metoo- byltingunni sem tröllreið samfélagsmiðlum í lok síðasta árs. Sjálf hefur hún upplifað misrétti og misbeitingu valds innan Hollywood heimsins.
Líkt og flestum er kunnugt var það upphaf Metoo byltingarinnar þegar fjöldi kvenna stigu fram og sökuðu kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um kynferðislega misnotkun, áreiti eða kynferðislegt ofbeldi. Aníta greinir frá því að hún hafi margoft hitt Harvey Weinstein og jafnvel fengið frá honum gylliboð um kvikmyndahlutverk þó svo að ekkert hafi orðið úr því.
„Hann hrósaði mér á afar sjarmerandi hátt, sagði mér að hann langaði að gera bíómynd fyrir mig þar sem ég léki Brigitte Bardot. Ég vissi að það væri „bullsjitt“, en veit ekki hvernig ég hefði snúið mér ef hann hefði beðið mig að koma upp á hótelherbergi að ræða það.“
Aníta rifjar einnig upp atvik sem átti sér stað þegar hún var að stíga sín fyrstu skref í Hollywood bransanum, 24 ára gömul. Hún var að eigin sögn „að gera sitt besta til synda í honum stóra sjó“ og lifa af í geira þar sem samkeppnin er yfirþyrmandi.
Það þýddi að hún þurfti ítrekað að leiða hjá sér óviðeigandi athugasemdir og niðurlægandi brandara. Lýsir hún því þannig að eitt kvöld hafi hún endað ein í hótelherbergi með fimm 45 ára karlmönnum, sem þá voru yfirmenn hennar. Um var að ræða valdamikla menn í bransanum.
„Þeir höfðu boðið mér í kvöldverð til að halda upp á fyrstu vinnuvikuna og svo í einhvers konar eftirpartý. Þar pöntuðu þeir vændiskonur til að dansa naktar og snerta hver aðra. Eftir skamma stund fóru þeir að hlæja að stelpunum og hrópa niðrandi athugasemdir eins og þær væru latar,“ rifjar Aníta upp.
Mér fannst ég ekki eiga þess kost að labba út. Eða gera athugasemd. Vera „lame“. Eða skemma fyrir þeim kvöldið. Hætta á að verða rekin, eða ekki ráðin í önnur verkefni hjá fyrirtækjum þeirra.“
Viðtalið við Anítu má finna í heild sinni í nýjasta tölublaði MAN.
