Var í framkvæmdahópi stjórnvalda um losun hafta – Lífeyrissjóðir funduðu í gær með ráðgjöfum sínum um söluferli bankans
Einn helsti ráðgjafi íslenskra stjórnvalda við vinnu að áætlun um losun fjármagnshafta síðustu ár verður eignarhaldsfélagi Kaupþings til aðstoðar í tengslum við sölu á allt að 87% hlut félagsins í Arion banka. Samkvæmt heimildum DV mun Benedikt Gíslason, fyrrverandi aðstoðarmaður og ráðgjafi fjármála- og efnahagsráðherra, starfa sem ráðgjafi Kaupþings við söluferlið og bætist hann þar með í hóp Morgans Stanley sem hefur um talsvert skeið unnið að undirbúningi að sölu á eignarhlut Kaupþings í bankanum. Miðað við núverandi bókfært eigið fé Arion banka er 87% hlutur Kaupþings metinn á um 173 milljarða króna en vegna afkomuskiptasamnings sem var gerður við kröfuhafa slitabúsins í fyrra mun meirihluti söluandvirðisins falla í skaut íslenska ríkisins.
Benedikt, sem á meðal annars sæti í stjórn tryggingafélagsins VÍS og lyfjafyrirtækisins Genis, gegndi lykilhlutverki í framkvæmdahópi stjórnvalda um losun hafta við að útbúa lausn gagnvart skuldaskilum föllnu bankanna sem hafði ekki neikvæð áhrif á gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins. Þá var hann einnig fenginn sem ráðgjafi fyrir hönd fjármálaráðuneytisins í vinnu stjórnvalda við að undirbúa frumvarp um meðferð aflandskrónueigna og í kjölfarið gjaldeyrisútboð þar sem eigendum slíkra krónueigna var gefinn kostur á að selja þær fyrir gjaldeyri á genginu 190 krónur fyrir hverja evru. Áður en Benedikt var ráðinn aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í nóvember 2013 starfaði hann sem framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs MP banka.
Undir lok síðasta árs hóf hópur lífeyrissjóða, leiddur af stærstu lífeyrissjóðum landsins, óformlegar viðræður við slitastjórn Kaupþings um möguleg kaup sjóðanna á hlut í Arion banka. Þær þreifingar náðu hins vegar aldrei lengra en að vera aðeins kurteisisviðræður enda var það afstaða stærstu kröfuhafa Kaupþings á þeim tíma að slitastjórnin hefði í reynd ekkert umboð til að eiga í viðræðum við hugsanlega kaupendur að bankanum – það væri verkefni sem hlyti að vera á forræði stjórnar hins nýja eignarhaldsfélags sem brátt tæki til starfa. Eftir að sú stjórn var kjörin til að stýra Kaupþingi um miðjan mars síðastliðinn voru viðræður við lífeyrissjóðina fljótlegar settar á ís. Sú staða hefur haldist óbreytt síðustu mánuði enda þótt stjórnendur og ráðgjafar Kaupþings hafi vissulega átt í óformlegum samskiptum við þá ráðgjafa sem lífeyrissjóðirnir réðu til að hafa umsjón með viðræðunum fyrir sína hönd í fyrra.
Skriður ætti að komast á söluferlið á komandi vikum og mánuðum, meðal annars núna þegar Kaupþing fær til liðs við sig íslenskan ráðgjafa að sölunni, en í gær, mánudag, áttu forsvarsmenn lífeyrissjóðanna – Gildi, Frjálsi, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins – fund síðdegis með ráðgjöfum sínum, samkvæmt heimildum DV. Fundinum var lýst sem upplýsingafundi þar sem ráðgjafar sjóðanna, Þórarinn V. Þórarinsson hæstaréttarlögmaður og ráðgjafafyrirtækið Icora Partners, fóru yfir stöðuna á söluferlinu og möguleg næstu skref í þeim efnum.
Af hálfu Kaupþings er verið að skoða ýmsar leiðir til að selja hlut félagsins í Arion banka. Þannig kæmi til greina að vera fyrst með lokað útboð (e. private placement) þar sem hópur lífeyrissjóða gæti keypt um og yfir 30% hlut í bankanum og í kjölfarið yrði sambærilegur hlutur boðinn til sölu í almennu hlutafjárútboði einhvern tíma á næsta ári. Engar ákvarðanir hafa hins vegar verið teknar um hvaða leið Kaupþing hyggst fara við að losa um hlut sinn í bankanum á næstu misserum. Arion banki hefur að undanförnu unnið að því að undirbúa áreiðanleikakönnun og koma upp sérstöku gagnaherbergi fyrir áhugasama kaupendur að bankanum. Bandaríski fjárfestingarbankinn Citigroup, eins og DV greindi fyrst frá í maí síðastliðnum, var ráðinn til að vera stjórn og stjórnendum Arion banka til ráðgjafar við söluferlið.
Nokkur íslensk fjármálafyrirtæki hafa á síðustu mánuðum sóst eftir því að veita Kaupþingi ráðgjöf við sölu á bankanum. Þar var um að ræða verðbréfafyrirtækin Arctica Finance og Virðingu ásamt Kviku fjárfestingarbanka. Samkvæmt uppleggi Arctica Finance og Virðingar var gert ráð fyrir því að félögin myndu vinna að verkefninu í sameiningu. Allt útlit var fyrir það um tíma í sumar að auk Benedikts myndi stjórn Kaupþings ganga til samkomulags við Kviku um að vera félaginu til ráðgjafar við söluferlið. Nú er hins vegar talið nánast útilokað að af því verði þar sem ólíklegt þykir að Fjármálaeftirlitið gæti veitt samþykki sitt fyrir því fyrirkomulagi að samkeppnisaðili Arion banka sé ráðgjafi við sölu á hlut í bankanum.
Íslenska ríkið á sem fyrr segir mikilla hagsmuna að gæta við sölu á Arion banka vegna afkomuskiptasamnings sem gerður var við kröfuhafa slitabúsins samhliða því að þeir féllust á stöðugleikaskilyrði stjórnvalda. Ef hlutur Kaupþings verður seldur í samræmi við bókfært eigið fé Arion banka, eins og það var um mitt þetta ár, þá mun ríkið fá um 117 milljarða króna í sinn hlut. Hluthafar Kaupþings myndu á móti fá um 56 milljarða og er þeim heimilt að skipta allri þeirri fjárhæð í erlendan gjaldeyri og flytja úr landi. Söluandvirðið sem rennur til ríkisins verður hins vegar 91 milljarður ef hluturinn selst á gengi sem nemur 0,7 miðað við núverandi bókfært eigið fé bankans. Hæstaréttarlögmaðurinn Steinar Þór Guðgeirsson, sem var formaður skilanefndar Kaupþings á árunum 2008 til 2012 og hefur unnið sem ráðgjafi Seðlabankans síðustu misseri, er sérstakur eftirlitsmaður inni í Kaupþingi og á að tryggja að ekki verði gengið á hagsmuni ríkisins í söluferlinu.
Fyrir utan 87% eignarhlut Kaupþings þá fer Bankasýslan með 13% hlut í bankanum fyrir hönd ríkisins. Bankasýslan getur óskað eftir upplýsingum um framvindu söluferlisins á grundvelli sérstaks rammasamnings sem stofnunin gerði við Arion banka fyrr á árinu. Árni Freyr Árnason, sem starfaði áður sem fulltrúi á lögmannsstofunni BBA Legal, var fenginn til að vera Bankasýslunni til ráðgjafar samhliða söluferli Kaupþings á eignarhlutnum í Arion banka.
Heildareignir Kaupþings námu um mitt þetta ár samtals 475 milljörðum króna og er 87% hlutur í Arion banka verðmætasta eign félagsins. Stærsti einstaki hluthafi Kaupþings, og jafnframt langsamlega áhrifamesti eigandi félagsins, er bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital en það er sjóðsstjórinn Keith Magliana sem fer fyrir fjárfestingu sjóðsins í Kaupþingi.
Eigendur Kaupþings hafa ríka hagsmuni af því að þeim takist að selja stóran hlut í Arion banka áður en kemur að fyrsta gjalddaga á 84 milljarða króna veðskuldabréfi sem Kaupþing gaf út til stjórnvalda sem hluta af stöðugleikaframlagi slitabúsins undir lok síðasta árs. Skuldabréfið er til þriggja ára, sem er í samræmi við þann tímaramma sem hluthafar Kaupþings hafa til að selja bankann, og ef þeir hafa ekki greitt inn á bréfið fyrir janúar 2018 þarf Kaupþing að inna af hendi tæplega fimm milljarða til ríkisins.
Skuldabréfið ber 5,5% vexti og er Kaupþingi aðeins heimilt að greiða upp bréfið fyrir andvirði af sölu á hlut félagsins í Arion banka. Áætlanir stjórnenda Kaupþings gera ráð fyrir að félagið verði búið að greiða upp skuldabréfið áður en kemur að fyrsta gjalddaga þess og því er ljóst að þeir þurfa að selja hlut í bankanum fyrir að lágmarki 84 milljarða króna áður en sá tímapunktur rennur upp í árslok 2017.
Þá er Kaupþingi sömuleiðis ekki heimilt að greiða sér út arð úr Arion banka og nýta þá fjármuni til að borga inn á skuldabréfið. Þannig kemur fram í skýringarriti sem lagt var fyrir kröfuhafafund Kaupþings hinn 13. nóvember síðastliðinn, og DV hefur undir höndum, að allar arðgreiðslur Arion banka til Kaupþings fram að sölu á bankanum skuli framseldar, á grundvelli fjársópsákvæðis, án endurgjalds til íslenskra stjórnvalda. Þær greiðslur kæmu því ekki til lækkunar á 84 milljarða króna veðskuldabréfinu sem Kaupþing gaf út til stjórnvalda.