fbpx
Fimmtudagur 03.júlí 2025
Fókus

Hjartnæm túlkun

Hinn ungi Jack Hollington skein skært í Sendiboðanum

Kolbrún Bergþórsdóttir
Miðvikudaginn 10. ágúst 2016 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það tekst ekki alltaf að kvikmynda heimsbókmenntirnar á sannfærandi hátt, en það tókst BBC sannarlega þegar það bjó Sendiboðanum (The Go-Between), skáldsögu L.P. Hartley, búning. Skáldsaga Hartleys, sem kom út árið 1953, er dásamlega vel skrifuð og upphafssetningin er fræg: „Fortíðin er framandi land, þar er farið öðruvísi að“ eða „The past is a foreign country, they do things differently there.“

Í myndinni tókst að fanga töfra bókarinnar. Sögusviðið er England og gamall maður, Leo, ferðast aftur til staðarins í Norfolk þar sem örlagaríkir atburðir gerðust sumarið 1900 þegar hann var þrettán ára.

Myndin var áberandi vel leikin. Joanna Vanderham lék hina ástríðufullu Marian sem nýtir hinn unga Leo, sem dáir hana, til að bera skilaboð til elskhuga síns sem er bóndi, en fjölskylda hennar vill að hún giftist ríkum nágranna. Jim Broadbent og Vanessa Redgrave bregðast yfirleitt ekki og voru bæði fjarska góð sem Marian og Leo á efri árum. Stjarna myndarinnar var þó Jack Hollington sem lék hinn unga Leo sem verður verkfæri í höndum elskendanna með skelfilegum afleiðingum. Hinn ungi leikari túlkaði varnarleysi og sakleysi Leos af miklum næmleika. Hið fallega og feimnislega bros hann bræddi hjarta manns. Hinn ungi Leo og gamli Leo sáust nokkrum sinnum saman og það samspil var frábærlega vel gert. Upphafsatriði myndarinnar þar sem hinn ungi Leo og sá gamli sitja saman í lest var snilldarlegt en þar spurði barnið gamla manninn: „Hvers vegna ertu orðinn þessi leiðindakurfur? Eins og ég kom þér vel af stað.“ Gamli Leo kallaði sjálfan sig „brunarúst í mannsmynd“.

Marian og Leo, hinn ungi aðdáandi hennar.
Sendiboðinn Marian og Leo, hinn ungi aðdáandi hennar.

Þetta var einstaklega falleg mynd, landslagið í myndinni var til dæmis svo guðdómlegt að mann langaði umsvifalaust að ganga inn í það. Sagan er harmræn og reyndar svo mjög að maður hugsaði um persónurnar í nokkra daga eftir að hafa séð myndina. Og mikið þótti manni vænt um hinn unga Leo og óskaði þess einlæglega að hann hefði átt hamingjuríkara líf en raun varð á og ekki orðið brunarúst í mannsmynd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Steingerður leitaði til spákvenna sem reyndist versta tímasóun – „Stundum yrði lífið léttbærara með þeirri vitneskju og stundum erfiðara“

Steingerður leitaði til spákvenna sem reyndist versta tímasóun – „Stundum yrði lífið léttbærara með þeirri vitneskju og stundum erfiðara“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Missti andlitið þegar hún heyrði hvað lánið hafði margfaldast mikið

Missti andlitið þegar hún heyrði hvað lánið hafði margfaldast mikið
Fókus
Fyrir 2 dögum

Skemmtiferðasigling frá helvíti – 4200 manns um borð og klósettin hættu að virka

Skemmtiferðasigling frá helvíti – 4200 manns um borð og klósettin hættu að virka
Fókus
Fyrir 2 dögum

Eva var stoppuð af lögreglunni og kom í Dagbók lögreglunnar – „Æ Eva hættu að ljúga að opinberum starfsmanni“

Eva var stoppuð af lögreglunni og kom í Dagbók lögreglunnar – „Æ Eva hættu að ljúga að opinberum starfsmanni“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Málið sem skók Pólland: Morðinginn afhjúpaði sig óvart í skáldsögu

Málið sem skók Pólland: Morðinginn afhjúpaði sig óvart í skáldsögu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Var heilt heimsveldi vísvitandi strokið út úr sögunni?

Var heilt heimsveldi vísvitandi strokið út úr sögunni?