fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn féll og borgarstjórnin fann sér ópólitískan borgarstjóra

Egill Helgason
Þriðjudaginn 29. maí 2018 08:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú er rætt um að ráða skuli ópólítískan borgarstjóra í Reykjavík, það sem heitir á útlensku teknókrata. Þetta hefur gerst áður og þótti ekki gefast sérstaklega vel.  Borgarstjórinn hét Egill Skúli Ingibergsson, þetta var á tíma vinstri meirihlutans í borgarstjórn sem sat frá 1978 til 1982. (Aftur var þetta svo reynt við brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur úr borgarstjórninni árið 2003, þá var Þórólfur Árnason ráðinn borgarstjóri, sat fram undir árslok 2004, þarna hófst tímabil þegar borgarstjórar komu og fóru, ótt og títt.)

Það þóttu geysileg tíðindi fyrir nákvæmlega fjörutíu árum þegar meirihluti Sjálfstæðismanna í borgarstjórninni féll í fyrsta sinn. Áður höfðu Sjálfstæðismenn „átt“ borgina. En á þessum árum var mjög sterk vinstri bylgja. Þetta var svo fréttnæmt að frá þessu var sagt í erlendum fjölmiðlum – það skeði ekki oft með pólitísk tíðindi á Íslandi. Ég dvaldi í Frakklandi á þessum tíma, tók upp Le Monde einn morguninn og þá var þar stór frétt um úrslit borgarstjórnarkosninga í Reykjavík.

Það voru Alþýðubandalagið, Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sem náðu völdum í borginni þetta vor. Alþýðubandalagið var langstærst með 29,7 prósent. Í efsta sæti þar var Sigurjón Pétursson, en sigurinn var ekki síst þakkaður Guðrúnu Helgadóttur rithöfundi sem var líka á listanum. Alþýðuflokkurinn fékk 13,4 prósent en Framsóknarflokkurinn 9,4 prósent. Björgvin Guðmundsson var í efsta sæti hjá Alþýðuflokknm en Kristján Benediktsson hjá Framsókn.

Við þessar aðstæður hefði kannski verið eðlilegast að Alþýðubandalagið fengi borgarstjórann, en hinir flokkarnir tveir sættu sig ekki við það. Úr varð þetta möndl með Egil Skúla sem borgarstjóra. Hann tók ekki við fyrr en í ágúst. Þetta meirihlutasamstarf gekk ekkert sérstaklega vel og afrekaskráin ekkert sérlega stór og Egill Skúli virkaði frekar utanveltu.  Þó voru uppi nýjar áherslur í skipulagsmálum.

1982 kom kornungur pólitíkus, Davíð Oddsson, inn á völlinn. Þá náði Sjálfstæðisflokkurinn sínum hreina meirihluta aftur með 52,5 prósenta fylgi. Sjálfstæðismenn voru ekkert á því að ráða borgarstjóra utan úr bæ og hafa aldrei gert.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Thomas Möller skrifar: Ísland á heima í ESB

Thomas Möller skrifar: Ísland á heima í ESB
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stálin mættust stinn í gær – „Niðurstaðan af hvoru tveggja er að borgin er stjórnlaus“

Stálin mættust stinn í gær – „Niðurstaðan af hvoru tveggja er að borgin er stjórnlaus“