Hryðjuverk eru ekki vandamál á Íslandi. Það er engin erlend þjóð sem ógnar okkur. Það er alveg sama hvað verður fabúlerað í hættumatsnefnd – það verður aldrei hægt að komast að annarri niðurstöðu en þessari.
Á sama tíma stendur til að stofna 240 manna varalið lögreglu sem hefði yfir að ráða hjálmum, skjöldum og fjórum sérstökum öryggisbílum. Er þetta til annars en að svala löngun manna sem þrá að fara í lögguleik – svona eins og þegar þeir fengu að elta greyin úr Saving Iceland um borg og bý?
1200 milljónum er veitt af fjárlögum til varnarmála, aðallega vegna nýrrar varnarmálastofnunar (sem dómsmálaráðherra segir í nýrri skýrslu að sé stílbrot).
Furðu stór hluti löggæslunnar á Íslandi er reyndar stilltur inn á paranoju vegna hryðjuverka; ástæðan er alþjóðasamningar sem við höfum undirgengist og segja að í þessu efni verðum við að gera eins og aðrar þjóðir.
Þar sem aðstæður eru allt aðrar.
Fíkniefni eru skelfilegt vandamál á Íslandi. Við horfum á eftir stórum hópum ungmenna verða eiturlyfjum að bráð. Fíkniefni setja æ meira mark á lífið í borginni Reykjavík
Væri ekki nær að fást við raunverulega ógn en ógn sem er svo fjarlæg að það þarf heila nefnd til að reyna að finna hana – líklega með flísatöng og stækkunargler að vopni?
Dómsmálaráðherrann getur reynt að kalla þetta vanþekkingu á varnarmálum. En nei – þetta er það sem er kallað common sense.
Annars benti einhver á að það vantaði Magnús Skarphéðinsson í hættumatsnefndina – til að meta hættuna á innrás frá Mars.
Eða er það ekki líka á verksviði hennar?
PS. Hvergi í heiminum eru samankomnir fleiri sérfræðingar í varnarmálum en í Pentagon. Það hefur gefist mjög vel síðustu áratugi eins og stríð í Vietnam, Afganistan og Írak sýna.