Stundum tekst manni ekki alveg að koma því frá sér sem maður vill segja. Í Silfrinu áðan var ég bögglast við að segja að varnarmál væru leiðinleg, fókin, núanseruð. Eða hvað?
Það sem ég vildi í raun segja er að umræða um varnar- og öryggismál fer oft fram á tæknimáli milli fólks sem álitur sig svo sérfrótt um málin að enginn annar hafi í raun rétt til að tjá sig.
Þannig er reynt að sveipa þennan málaflokk dularhjúp torskiljanlegra fræða. Þegar sannleikurinn er sá að þeir sem um varnarmál fjalla eru oft og einatt að maka krókinn, gæta hagsmuna sem þeir hafa sjálfir af aukinni her-, lögreglu og öryggisvæðingu. Svo eru aðrir sem fá þessi mál svo gjörsamlega á peruna að þeim er fyrirmunað að greina aukatriði frá aðalatriðum, sjá skóginn fyrir trjánum.
Ég læt fljóta með þá skoðun sem ég held að verði brátt ofan á að Íslandi hafi ekki staðið nein einasta hernaðarógn af Sovétríkjunum í kalda stríðinu. Hins vegar má vel réttlæta veru Bandaríkjahers hér með því að þetta hafi verið framlag okkar til sameiginlegra varna lýðræðisríkja. Kannski var það ekki annað en skylda okkar?