fbpx
Fimmtudagur 28.ágúst 2025
Eyjan

Ofstækisfullir sósíalistar á Morgunblaðinu

Egill Helgason
Laugardaginn 15. desember 2007 15:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

thjodmal2tbl1arg.png

Í gær barst mér í hendur nýtt hefti af Þjóðmálum. Ég leyni því ekki að mér finnst þetta heldur skemmtilegt tímarit. Og það er líka ágætt að fólk úr Samfylkingunni sé farið að gefa út tímaritið Herðubreið til að keppa við Þjóðmálin.

Þá er helst að maður sakni þess að Vinstri grænir komi sér upp samskonar riti. Það vantar hugmyndalega innspýtingu í þann flokk sem hefur verið nokkurn veginn málgagnslaus síðan Múrinn leið undir lok.

Þjóðmál eru fyrst og fremst málgagn ákveðins hóps innan Sjálfstæðisflokksins, þeirra sem fylgja Davíð Oddssyni og Birni Bjarnasyni að málum. Björn gefur línuna í ýmsum málum í greinum sínum í ritinu – nú síðast skrifar hann um REI málið sem hann telur að sé mikið hneyksli. Það er samt ekki alveg trúverðugt hvernig Björn reynir að fría sjálfstæðismenn ábyrgð á málinu; voru það ekki þeir sem störtuðu öllu klabbinu? Það er í raun ekkert vit í því að skoða REI málið með flokkspólitískum gleraugum – maður verður engu nær.

Mestum tíðindum sætir grein eftir Skúla Magnússon sem birtist í tímaritinu. Ég hef áður sagt frá Skúla hér á vefnum. Hann fór til náms í Peking á sjötta áratugnum, sá í gegnum allt svindlið og skrifaði óvægnar lýsingar á kúguninni til félaga sinna í samtökum námsmanna í austantjaldsríkjum.

Í greininni tekur Skúli Sverri Jakobsson sagnfræðing til bæna. Sverrir skrifaði ritdóm um Maobók Jung Chang í lesbók Morgunblaðsins þar sem hann fann verkinu flest til foráttu. Taldi að ekki hefði verið tekið nægt tillit til þess góða sem Mao hefði gert, framfara á tíma hans, auk þess sem heimildavinnunni væri mjög ábótavant. Slúður var heitið sem Sverrir valdi bókinni.

Skúli sem upplifði ógnarstjórn Maos á eigin skinni reytir fjaðrirnar af Sverri hægt og bítandi:

„Nei, Sverrir Jakobsson, við erum ekki staddir í Vestur-Evrópu nútímans. Við erum staddir í svartnætti aldagamals despótisma – alræðis, réttleysis og ógnarstjórnar.“

Ritstjóri Þjóðmála, Jakob F. Ásgeirsson, skrifar Ritstjóraspjall. Jakob mætti að ósekju skrifa meira – hann er einn skemmtilegasti dálkahöfundur landsins eins og þeir vita sem muna viðhorfsgreinar hans í Morgunblaðinu.

Nú ber svo við að Jakob er heldur ósáttur við sinn gamla vinnustað. Hann telur að Mogginn hafi villst rækilega af leið, áður hafi mátt bera hann saman við blöð eins og The Daily Telegraph og The Times, en það eigi ekki við á dögum hinna nýju Morgunblaðsmanna.

Jakob kvartar undan því að bókin um Mao hafi ekki fengið aðra umfjöllun í Morgunblaðinu en áðurnefndan ritdóm Sverris Jakobssonar, þekktan vinstrimann:

„Til að ritdæma bókina fékk Morgunblaðið mann sem einn fárra núlifandi Íslendinga hefur lýst því yfir að ekki hafi ríkt alræði í Sovétríkjunum! Hann skrifaði náttúrlega óhróður um bókina og höfund hennar. Þessi merka bók, sem samsinnir þeim grunnhugmyndum sem Morgunblaðið hefur um tíðina látið í ljós um kommúnismann og Sovétríkin, fékk enga aðra umfjöllun í blaðinu.“

Mest er þó Jakobi uppsigað við þá sem stjórna Lesbók Morgunblaðsins:

„Lesbók Morgunblaðsins hefur verið gerð að vettvangi fyrir einhvers konar vinstri spekinga af því tagi sem skrifuðu ritdómana um bækurnar um kommúnismann og Mao. Þar vaða uppi ofstækisfullir sósíalistar, femínistar, póstmódernistar og umhverfisverndunarsinnar. Gamalgrónir lesendur Morgunblaðsins eru margir hættir að fletta Lesbókinni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur

Björn Jón skrifar: Réttindi og skyldur
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Valdaflokkarnir gáfu landsbyggðinni langt nef

Sigmundur Ernir skrifar: Valdaflokkarnir gáfu landsbyggðinni langt nef