fbpx
Miðvikudagur 27.ágúst 2025
Eyjan

Er Samfylkingin hin nýja Framsókn?

Egill Helgason
Fimmtudaginn 29. nóvember 2007 18:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samfylkingin hefur styrkt stöðu sína og situr ekki bara í ríkisstjórn heldur stjórnar líka í helstu bæjarfélögum, Sjálfstæðisflokkurinn er ringlaður eftir byltinguna í Reykjavík, Framsókn er glöð að geta aftur farið að tala illa um íhaldið en Vinstri grænir hafa eignast leiðtogaefni…

(Greinin birtist í nóvemberhefti tímaritsins Ísafoldar.)

257.jpg

Mest spennandi samsæriskenning sem nú er uppi í pólitíkinni er að um mitt kjörtímabil Alþingis muni Samfylkingin taka sig til, finna einhverja átyllu til að slíta stjórnarsamstarfinu og mynda ríkisstjórn með stjórnarandstöðuflokkunum – eftir mynstri hins nýja REI-lista. Skilja Sjálfstæðisflokkinn eftir á köldum klaka.

Þar með verður Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrsta konan til að verða forsætisráðherra á Íslandi.

Innan Sjálfstæðisflokksins eru ýmsir sem óttast að þetta verði raunin. Maður hefur getað lesið þessa kenningu í Staksteinum Morgunblaðsins, þetta er rætt á mannamótum þar sem flokksmenn koma saman. Geir Haarde er hins vegar óþreytandi við að halda því fram að hann sé bjartsýnn á stjórnarsamstarfið. Atburðirnir í Reykjavík breyti engu þar um.

Töluverð freisting

Auðvitað eru þetta ekki annað en spekúlasjónir. Freistingin gæti samt verið töluverð fyrir Samfylkinguna. Þá væri hún loksins orðin stóri valkosturinn við Sjálfstæðisflokkinn, ekki bara enn ein hækja hans í ríkisstjórn. Ingibjörg Sólrún fengi öllum pólitískum metnaði sínum svalað.

Sjálfstæðismenn líta margir svo á að þeir hafi bjargað pólitísku lífi Ingibjargar Sólrúnar með því að taka flokk hennar í ríkisstjórn í vor. Margir eru enn ósáttir við þetta; þeim hefði þótt ljúft að losna við Sólrúnu. Víst er að hagur Samfylkingarinnar hefur vænkast mjög síðan þá. Nú hefur hún sirka 40-45 prósenta hut í ríkisstjórn. Eftir síðustu vendingar í pólitíkinni er ein af vonarstjörnum flokksins orðinn borgarstjóri í Reykjavík. Hún situr í meirihluta í bæjarstjórn á Akureyri – og er sem fyrr einráð í Hafnarfirði.

Þetta er allt önnur mynd en blasti við síðasta vetur þegar Ingibjörg Sólrún barðist fyrir lífi sínu í pólitík, fór í kosningar og rétt náði nægu fylgi til að það væri viðunnandi fyrir flokkinn. Það mátti eiginlega ekki vera prósentubroti minna.

Arftaki Framsóknar?

En það er líka hægt að taka annan pól í hæðina og velta því fyrir sér hvort Samfylkingin sé að verða arftaki Framsóknarflokksins í íslenskri pólitík. Til skamms tíma var varla hægt að mynda samsteypustjórnir á Íslandi án þess að Framsóknarflokkurinn væri með. Nú er svo dregið af Framsókn að hún hefur glatað þessu hlutverki.

Framsókn er orðin smáflokkur.

Samfylkingin gæti fyllt upp í tómarúmið. Orðið flokkur sem situr á miðjunni og starfar til skiptis til vinstri og hægri. Þetta var ekki ætlunin þegar Samfylkingin var stofnuð. En þegar þessi veruleiki blasir við má vera að flokksmönnum þyki hann ágætur. Smátt og smátt myndi Samfylkingin byggjast upp sem valdaflokkur. Fólk sem er hliðhollt flokknum myndi koma sér vel fyrir í kerfinu. Kannski er þetta þægilegra hlutskipti en sífelld andstaða við Sjálfstæðisflokk sem hvort sem er virðist ósigrandi til langframa.

Veik stjórnarandstaða

Eins og margoft hefur verið sagt er stjórnarandstaðan ákaflega veik – svo mjög að leiðtogar stjórnarflokkanna hafa áhyggjur af því og vilja að hún fái meiri aðstoð í þinginu. Formenn tveggja stjórnarandstöðuflokka virðast á öruggri útleið – það er spurning hvort sá þriðju heldur út fram yfir kosningar.

Eftir síðustu innanflokksátök í Frjálslynda flokknum sagði Guðjón Arnar Kristjánsson að hann væri orðinn þreyttur á að halda liðinu saman. Flestum ber saman um að Guðjón sé góður karl, en stórbrotinn leiðtogi er hann varla. Að honum gengnum sér maður varla hvað Frjálslyndi flokkurinn á að vera. Flokkur í anda Carls Hagen eins og Jón Magnússon lætur sig dreyma um – flokkur smáborgara sem vilja lægri skatta, minni ríkisumsvif, eru tortryggnir gagnvart innfluttu vinnuafli? Eða byggðasinnaður flokkur að vestan eins og hann yrði í höndum Kristins H. Gunnarssonar.

Það er ekki auðvelt að ímynda sér að þessir tveir pólitísku ævintýramenn, Jón og Kristinn, geti starfað lengi saman í flokki, hvað þá veitt honum leiðsögn. Þeir eru ekki í hópi mestu sáttamanna í stjórnmálunum.

„Jónas var góður á sínum tíma“

Nú í haust hitti ég áhrifamann úr Framsóknarflokknum á förnum vegi. Hann hafði áhyggjur af því að Guðni Ágústsson væri farinn að vitna í Jónas frá Hriflu.

„Jónas var góður á sínum tíma,“ sagði framsóknarmaðurinn, „en það sem hann sagði þá á engan veginn við í dag.“

Í grundvallaratriðum má segja að Jónas hafi verið á móti þéttbýlinu. Hann trúði að besta samfélagsform í heimi væri til sveita, helst á smábýlum. Í ýktri mynd má segja að Jónas hafi fyllst tortryggni þegar meira en tvö hús stóðu saman.

Samtíminn hefur stefnt í þveröfuga átt. Fólk flytur í stórum stíl i þéttbýlið. Smábýli leggjast í eyði. Þetta hefur verið að gerast síðustu hundrað árin á Íslandi – og heldur enn áfram. Ræður Rauðsmýrarmadömmunnar sem Halldór Laxness byggði á Jónasi vekja varla annað en kátínu núorðið.

Erfið arfleifð Halldórs

Halldór Ásgrímsson hafði þá framtíðarsýn að Framsóknarflokkurinn yrði frjálslyndur og hófsamur miðjuflokkur í þéttbýlinu. Þetta hefur verið þróunin í sumum löndum Evrópu; gamlir bændaflokkar hafa flutt í bæinn og breytt stefnu sinni og ímynd. Í raun gekk þetta nokkuð vel hjá Halldóri þangað til hann gerði þau alvarlegu mistök að spyrða flokk sinn algjörlega saman við Sjálfstæðisflokk Davíðs Oddssonar – til góðs eða ills.

Að sumu leyti má líkja sambandi Halldórs og Davíðs við samband Bush og Blairs. Maður skildi stundum ekki hversu langt Blair gekk í þjónkun sinni við Bandaríkjaforsetann. Sá hann ekki að hann var að tortíma sjálfum sér pólitískt? Eins var þetta við Halldór, hann dróst að hinum sterkari manni, fór að gera vilja hans í einu og öllu. Eða þannig kom það kjósendum fyrir sjónir.

Þetta er sú saga sem framsóknarmenn þurfa að horfast í augu við. Öllum bar saman um að ósigurinn í kosningunum í vor hafi ekki verið millibilsformanninum Jóni Sigurðssyni að kenna. Það var arfleifð Halldórs sem var að etja.

Hvað gerir Framsókn á mölinni?

Spurningin er hvort þeir fáu framsóknarmenn sem eru eftir á mölinni nái að þrauka þorrann og góuna í von um betri tíð. Það virðist vonlaust að verði einhver endurnýjun – að nýjir liðsmenn bætist í hópinn. Aðrir staðir er meira freistandi fyrir framapotara – en ég hef haldið því fram að stjórnmálaflokkar þurfi líka á slíku fólki að halda.

Hópurinn er mjög sundurleitur. Guðni Ágústsson og Bjarni Harðarson eru að sumu leyti eins og Don Kíkóti og Sansjó Pansa, samferðamenn í pólitík; það er erfitt að sjá hvaða samleið Björn Ingi Hrafnsson, Valgerður Sverrisdóttir eða Siv Friðleifsdóttir eigi með þeim. Þau eru öll evrópusinnuð, gætu í raun sem best átt heima í Samfylkingunni.

Flestum ber saman um að Guðni sitji ekki lengi sem formaður – kannski langaði hann aldrei í djobbið – en það er erfitt að sjá hver er gæti verið arftaki hans.

Vinátta breytist í ákafa tortryggni

Björn Ingi Hrafnsson hefur aftur náð vopnum sínum innan Framsóknarflokksins eftir að hafa snúið á sjálfstæðismenn í Reykjavík. Þar skoraði hann ansi mörg stig meðal flokkssystkina sinna. Hins vegar er Björn Ingi ekki búinn að bíta úr nálinni með REI-málið; andstæðingar hans innan flokksins munu geta núið honum því um nasir hvenær sem þeim mislíkar við hann. Því kann að vera torsótt fyrir Björn Inga að verða formaður flokksins.

Annars eru ein merkilegustu pólitísku tíðindi ársins hvernig Framsókn hefur fjarlægst Sjálfstæðisflokkinn eftir áralangt vinarþel milli þessara flokka – tíma sem var farinn að virðast óendanlegur. Nú er eins og brjótist út gremja sem hefur safnast upp í löngu hjónabandi. Það hlýtur að vera hressandi fyrir gamla framsóknarmenn að fá aftur að tala illa um íhaldið.

Nú er Kópavogur eini stóri staðurinn þar sem Framsókn starfar með Sjálfstæðisflokknum. Sá meirihluti er varla á vetur setjandi, lafir varla nema út af persónulegum metnaði einstakra bæjarfulltrúa. Það er ekki óhugsandi að innan flokksins myndist þrýstingur á framsóknarmenn í Kópavogi um að söðla um, vinna til vinstri, setja Gunnar Birgisson af.

Hreinstefnufólk í VG

Fyrir flokk eins og Vinstri græna er alltaf viss háski að koma nálægt stjórn. Margir flokksmenn eru algjört hreinstefnufólk sem vill alls ekki óhreinka sig á valdi af neinu tagi. Þegar nýi meirihlutinn var myndaður í Reykjavík gekk sósíalistinn Birna Þórðardóttir úr flokknum og sagðist ekki ætla að ganga spillingaröflunum á hönd. Undir eins og málamiðlanir ber á góma forðar hreinstefnufólkið sér. Í Noregi hefur systurflokkur Vinstri grænna verið í ríkisstjórn. Það hefur reynst flokknum mjög erfitt; í sveitarstjórnakosningum nýskeð tapaði Sosialistisk Venstreparti helmingnum af fylgi sínu.

En ef Vinstri grænir ætla að verða leiðandi afl í stjórnarandstöðu og valkostur við hina ógnarsterku ríkisstjórn þurfa þeir að gera sig ívið stjórntækari. Það byggist auðvitað á því að fækka hinum pólitísku upphlaupum, vera aðeins meira með og minna á móti, og – má maður segja það – kannski höfða aðeins lengra inn á miðjuna?

Vonbrigði Vinstri grænna

Að sumu leyti virðist vera fullreynt með Steingrím J. Sigfússon sem formann flokksins. Hann er snjall, skemmtilegur og lítríkur stjórnmálamaður, en hann hefur setið aldarfjórðung á þingi – þar af 22 ár í stjórnarandstöðu. Steingrímur var síðast í ríkisstjórn 1991.

Vinstri grænir fengu fjórtán prósenta fylgi í síðustu kosningum. Það var talsverð viðbót, en flokksmenn skynjuðu það sem ósigur. Kosningahátíðir flokksins voru eins og líkvökur. Skoðanakannanir höfðu gefið flokknum fyrirheit um miklu meira fylgi. Um tíma leit út fyrir að VG ætlaði að verða stærri flokkur en Samfylkingin. Um tíma ofmetnuðust Vinstri grænir – það er varla hægt að nota annað orð um það.

Tölurnar í skoðanakönnunum eiga örugglega eftir að fara upp aftur, en nú er spurning hvort hægt er að taka mark á þeim. Flokkurinn virðist ekki geta komist upp í nema fremur slappt fylgi Alþýðubandalagsins í kosningum. Hann þarf að velta því fyrir sér hvernig hægt er að láta fólk sem nefnir VG oft og einatt í skoðanakönnunum kjósa flokkinn þegar komið er á kjörstað.

Svandís og hið helga graal

Svarið liggur að hluta til í því að tóna niður ímynd VG sem óánægjuflokks. Græni liturinn þarf kannski að verða sterkari en sá rauði veikari. Það er ekki snjallt að vera í tengslum við flokk eins og Die Linke í Þýskalandi. En formannsskipti gætu líka verið málið. Svandís Svavarsdóttir virðist vera augljós arftaki Steingríms J. – ekki síst eftir hin dramatísku valdaskipti í Reykjavík. Svandís ætti að geta haft víðari skírskotun – maður sér ekki betur en að Samfylkingunni stafi miklu meiri ógn af Svandísi en Steingrími.

Steingrímur mun geta setið sem formaður eins lengi og hann vill. Þannig séð er staða hans ekki í hættu. Flokksmenn eru tryggir honum. En hugsanlega skynjar hann sinn vitjunartíma. Svandís kemur líka úr sama armi gamla Alþýðubandalagsins og Steingrímur – ég hef áður orðað það svo að í augum fólksins þaðan er ætterni Svandísar eins og hið helga graal.

Byltingin í Reykjavík

Og þá eru það sjálfstæðismenn. Það er að vissu leyti erfitt að sjá hvort byltingin í Reykjavík skaði flokkinn að marki á landsvísu. Áður en kom til þessara atburða virtist Geir Haarde hafa öll tök í flokknum, trúnaðarmenn hans eru í öllum helstu áhrifastöðum í flokknum – gamla arminum í kringum Davíð hefur mestanpart verið ýtt út.

En hvað gerðist fyrstu vikurnar í október? Átti að sæta lagi, bola Vilhjálmi Þ. burt, setja Gísla Martein eða Hönnu Birnu í borgarstjórastólinn? Mistókst þetta svona hrapallega – meðan formaður flokksins svaf á verðinum? Var gamla Davíðsklíkan komin aftur á stúfana? Því verður ekki neitað að Geir virðist að sumu leyti vera værukær maður og átakafælinn. Að hve miklu leyti ber hann ábyrgð á þessu og að hve miklu leyti kenna flokksmenn honum um?

Reykjavík er ekki söm og áður

Þá er reyndar til þess að líta að langt er síðan Reykjavík var djásnið í kórónu Sjálfstæðisflokksins. Ef núverandi meirihluti situr út kjörtimabilið munu sjálfstæðismenn ekki hafa stjórnað borginni nema í sautján mánuði af heilum sextán árum. Heil kynslóð vex úr grasi í Reykjavík sem er stjórnað af vinstri mönnum. Hér áður fyrr hefði sjálfstæðismönnum þótt þetta óbærileg tilhugsun – nú hefur þetta vanist.

Margir eru fluttir í Garðabæinn, Seltjarnarnesið eða Kópavog og horfa þaðan með hryllingi til Reykjavíkur. Vita sem er að tíminn þegar flokkurinn stjórnaði einn í Reykjavík kemur aldrei aftur.

Mikið í húfi í ríkisstjórninni

Geir á allt undir því að vel takist til í stjórnarsamstarfinu sem hann stofnaði til gegn vilja margra flokksmanna. Hann og Þorgerður Katrín – einn höfuðarkitekt stjórnarinnar – munu leggja mikið á sig til að það gangi upp. Það myndi vera þungbært fyrir þau að þurfa einhvern tíma að viðurkenna að það hafi verið mistök að bjóða Samfylkingunni inn í hlýjuna. Flokksmenn myndu eiga erfitt með að fyrirgefa það.

Þetta styrkir auðvitað stöðu Samfylkingarinnar í stjórninni. Þótt hún hafi fengið allmiklu veigaminni ráðherraembætti er samningsstaða hennar í raun ágæt. Og svo hefur hún alltaf þetta tromp upp í erminni, að geta af einhverju tilefni hlaupið burt og myndað ríkisstjórn til vinstri. Forskriftin að þessu er komin í borginni. En þetta væri ævintýraspil – sjálfstæðismenn gætu svarað með því að bjóða Vinstri grænum inn fyrir í ríkisstjórnina.

Þannig að báðir flokkar hafa kannski hag af því að halda þessu í jafnvægi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Nína Richter skrifar: Strætófólkið og spandex-rassarnir

Nína Richter skrifar: Strætófólkið og spandex-rassarnir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir að ESB-aðild sé engin ógn við sjávarútveginn

Segir að ESB-aðild sé engin ógn við sjávarútveginn
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Trump leitar í smiðju höfundar hrunsins

Orðið á götunni: Trump leitar í smiðju höfundar hrunsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi