Haraldur Bessason var í viðtali í Kiljunni vegna bókar sem nefnist Dagstund í Fort Garry. Segir frá lífi íslenskra landnema í vesturheimi og samskiptum þeirra við nágranna sína, til dæmis Úkraínumenn og indjána.
Þarna segir af Úkraínumönnum sem gátu farið með kveðskap á íslensku og indjánum sem kunnu ekki annað tungumál en sitt eigið – og svo eitthvað í tungu þessarar fjarlægu eyjar. Við töluðum líka um Guttorm Guttormsson skáld sem lék sér við indíánabörn þegar hann var drengur og lærði af þeim mál Cree-ættbálksins.
Þegar ég hlustaði á viðtalið aftur í kvöld rifjaðist upp fyrir mér saga sem mér var einhvern tíma sögð.
Íslendingur er villtur einhvers staðar á sléttum Kanada um hávetur. Allt er á kafi í snjó, það er fimbulkuldi, svo kemur myrkur. Íslendingurinn telur að þarna muni hann bera beinin.
Þá sér hann mann standa hálfan bak við tré. Náttúrubarn. Indíána.
Maðurinn ávarpar indíánann á ensku. Indjáninn svarar ekki, skilur líklega ekki – segir svo:
„Ertu landi?“