Margt í ævisögu Guðna Ágústssonar vekur athygli. Sumt vissi maður ekki áður, annað taldi maður sig vita en fær hér staðfest. Einna mestur fengur er í lýsingum af síðari dögum tvíhöfðastjórnar Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar – þegar gamanið í ríkisstjórninni var farið að kárna og taugarnar voru orðnar mjög þandar.
Það er til dæmis lýsing á því hversu óttablandna lotningu þingmenn Sjálfstæðisflokksins báru fyrir leiðtoga sínum:
„Þeir efast ekki lengur um orð og gjörðir foringja síns. Afslappaðir og umburðarlyndir þingmenn hans eru farnir að stífna upp. Þeir eru hættir að hlæja að sömu bröndurunum og áður á kaffistofu þinggsins og gott ef þeir eru ekki orðnir miklu meðvitaðri en áður um það með hverjum þeir sitja til borðs og drekka kaffið sitt. Sjaldan eða aldrei hefur nokkur þingflokkur verið tekinn jafn föstum tökum á stuttum tíma á alþingi þjóðarinnar…“
Annað eru lýsingar á tilurð fjölmiðlafrumvarpsins sem Davíð henti beinlínis inn á fund ríkisstjórnarinnar og ákvörðun um stuðning við Íraksstríðið þar sem þeir virðast hafa verið fullkomlega samstíga Davíð og Halldór – það þurfti semsagt ekki Davíð til að teyma Halldór áfram.
Svo eru það stjórnunarhættir Halldórs Ásgrímssonar sem virðast satt að segja hafa verið frekar einkennilegir. Það er ljóst að hann hefur ekki haft neitt traust á varaformanni sínum. Þegar Halldór vill draga sig úr stjórnmálum heimtar hann að Guðni geri hið sama. Spyr Guðna meira að segja á einum fundinum: „Hvað ætlar þú að gera þegar þú ert hættur í pólitíkinni?“
Einna skrítnust er aðferðin sem Halldór notar við tjá þennan vilja sinn. Guðni er boðaður á fund með Finni Ingólfssyni og Þórólfi Gíslasyni, tveimur kommisörum Framsóknar í viðskiptalífinu – þá var hugmyndin reyndar að Finnur tæki við flokknum. Það eru þeir segja honum til hvers Halldór ætlast.
Er furða þótt Guðni segi að Halldór sé dulur maður?
Guðni segist í bókinni vilja stefna Framsóknarflokknum til vinstri. Hann segir að flokkurinn eigi að vera félagshyggjuflokkur með sterku ívafi til vinstri.
Nú bíðum við og sjáum hvort Guðna takist að færa flokkinn þangað.