fbpx
Þriðjudagur 26.ágúst 2025
Eyjan

Þegar Ísland var í Austur-Evrópu

Egill Helgason
Mánudaginn 26. nóvember 2007 10:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við sem erum komin á miðjan aldur munum eftir gömlu flugstöðinni í Keflavík. Hún var heldur óhrjáleg þar sem hún stóð inni í miðju landi herstöðvarinnar – en samt var hún eins konar gósenland fullt af forboðnum lystisemdum.

Fólk mætti fyrir allar aldir í flugstöðina, keypti sér bjórinn sem ekki mátti selja utan girðingarinnar, jafnvel rækjubrauðsneið með, kom sér vel fyrir á þröngum bekkjunum. Þá mátti kveikja í sígarettum áður en maður flaug – og líka á meðan fluginu stóð. Þetta var á árunum áður en forsjárhyggjan tók völdin.

Bjórarnir í flugstöðinni urðu oft dálítið margir. Svo tók við drykkjan í flugvélinni þar sem áfengið var heldur ekki skammtað – ólíkt því sem tíðkaðist heima á Íslandi. Tengdaforeldrar mínir voru í einni fyrstu sólarlandaferðinni til Spánar. Þau rifja upp að karlmennirnir voru allir í jakkafötum með svört lakkrísbindi eins og þá þótti sjálfsagður klæðnaður. Þegar flugvélin lenti í hitanum á Costa del Sol voru þeir ennþá í þessum fötum. Næstu dagana mátti sjá þessa jakkafatamenn út um ströndina, á börunum eða áfengisdauða á sólbekkjunum.

Þeir farþegar sem náðu að fara í sundföt brunnu allir sem einn. Það eina sem fólkið hafði til að bera á sig í þá daga var svokölluð Coppertone olía sem átti að tryggja snögga og djúpa brúnku.

—- —- —-

Íslendingar hafa aldrei kunnað að höndla áfengi, sama af hvaða stétt þeir eru eða hvar þeir eru staddir. Það voru fleiri en sólarlandafarar sem byrjuðu að hella í sig í flugstöðinni. Fyrir mörgum árum sat ég íslenska menningarráðstefnu í erlendri borg. Þetta var svosem ósköp meinlaus samkoma, gerði varla neitt sérstakt fyrir land og þjóð en varla neinn skaða heldur.

En það sem vakti athygli mína var að menningarvitarnir sem hafði verið flogið með frá Íslandi gagngert vegna hátíðarinnar voru fullir mestallan tímann. Það þótti ennþá svo mikill viðburður að koma út fyrir landsteinana að menn urðu að halda upp á það með fylleríi. Sumir báru reyndar fyrir sig flughræðslu – að hún hefði orðið til þess að þeir byrjuðu að staupa sig.

Eftir þetta hætti ég sumpart að leggja trúnað á andlegt líf vissra kynslóða af Íslendingum í útlöndum. Þeir voru dálítið eins og kotbændurnir sem komu á mölina á nítjándu öldinni, héngu í búðum kaupmannanna og sníktu brennivín – uns þeir ultu út í forina á strætunum.

En líklega er þetta allt að breytast. Það eru kannski ekki nema fótboltabullur sem fara í fyllerísferðir til útlanda. Við höfum ungt fólk sem er miklu veraldarvanara. Vinur minn einn var á menningarþingi í sænskri borg fyrir nokkrum árum. Þar var fólk af minni kynslóð og aðeins eldra og skandalíseraði gjörsamlega. Þekkt skáld tók fullan sal af fólki í gíslingu með ljóðalestri sem bar öll merki ofurölvunar, kvikmyndagerðarkona dansaði á borði og fletti upp um sig pilsinu.

Á sama tíma trítluðu piltarnir í Sigurrós upp á sviðið. Þeir voru á sokkaleistunum. Finnst víst betra að spila svoleiðis – í betri tengslum við gólfið – móður jörð. Héldu á rjúkandi tekrúsum, kveiktu í reykelsum. Spiluðu svo tónlistina sem hefur heillað fólk út um allan heim vegna þess hvað hún minnir mikið á álfa.

Kannski eru það ekki bara útrásarvíkingarnir sem eru alvöru heimsborgarar heldur líka krúttkynslóðin?

—- —- —-

Þegar ég hugsa til utanlandsferða æsku minnar eru eiginlega eftirminnilegust höftin sem þurfti að sigrast á, aðallega vandræðin við að fá gjaldeyri. En líka hvað fólk hafði almennt litla trú á að það væri nokkur ástæða að þvælast til útlanda. Ég fór á sex vikna frönskunámskeið í Grenoble, borg við rætur frönsku Alpanna. Sem farareyri fékk ég ávísun frá Landsbankanun, stílaða á þýskan banka, en sem ég átti að skipta í Frakklandi. Bankinn á Íslandi sagði að það yrði ekki vandamál.

Í Grenoble kannaðist enginn við ávísunina né þessa banka. Ég fékk hið hryssingslega franska skrifstofumannsviðmót sem er frægt. Þeir tóku þó loks við ávísuninni og sendu hana til Parísar. Ég beið meðan hún var til skoðunar þar. Fór hvern dag í útibúið í Grenoble uns ég var eiginlega búinn að missa vonina. Hefði soltið nema vegna þess að góðir Danir sem voru með mér á námskeiðinu gáfu mér að borða. Eitt sinn stal ég tómati og agúrku hjá grænmetissala. Lá uppi í rúmi á stúdentagarði og las Karmazovbræðurna til að eyða ekki mikilli orku.

Þegar tima mínu í Grenoble var að verða lokið fór faðir minn til aðalbankastjóra Landsbankans og fékk hann til að hringja í kollega sinn, líklega aðalbankastjóra Banque Nationale de Paris, til að málið mætti leysast.

Daginn eftir var ég með fulla vasa af reiðufé, en þá var frönskunámskeiðið líka búið og ég á leið heim.

—- —- —-

Íslendingar stóðu í eilífu snapi eftir gjaldeyri. Ég var um tíma næturvörður á Hótel Borg. Það þótti gott starf vegna þess að þá gat maður staðið í gjaldeyrisviðskiptum við hótelgesti. Fólk sníkti gjaldeyri af útlendingum, nurlaði saman dollurum – þeir þóttu bestir. Það er í raun furðu stutt síðan þetta hætti. Höftin voru slík og afskiptasemin að nánast er hægt að fullyrða að Ísland hafi verið sósíalistaríki – þótt flokkarnir sem stjórnuðu hér hafi alls ekki litið á sig sem slíka. Ferðamenn sem komu hingað nefndu að þetta líktist Austur-Evrópu.

Það tók langan tíma að fella höftin. Það eru ákveðnir atburðir sem má rekja sig eftir: Þegar Davíð Scheving Thorsteinsson tók bjórkassa sem var ætlaður flugmönnum og gekk með hann út úr fríhöfninni. Þegar Jón Sig viðskiptaráðherra afnam helstu gjaldeyristakmarkanirnar. Inngangan í EES.

Fjórfrelsið sem við aðhyllumst eins og flestar vestrænar þjóðir – að minnsta kosti í orði kveðnu – felur í sér frjálst flæði fjármagns, vöru, þjónustu og vinnuafls.

Við erum samt ennþá með skrítna mynt sem fæst hvergi skipt í útlöndum sem segir allnokkuð um verðgildi hennar. Höldum í hana mestanpart af tilfinningasemi og þjóðrembu. Á sínum tíma þótti Íslendingum líka vænt um höftin – héldu bókstaflega að lífið gæti ekki verið öðruvísi.

—- —- —

Nú eru útrásarmennirnir okkar búnir að kaupa Kaupmannahöfn og hálfa London. Maður gengur ekki um þessar borgir lengur án þess að þenja brjóstið af þjóðarstolti. Þeir búa í London, þar sem er helsti staður nýríkra, keyra á Bugatti og Bentley, skreppa heim í einkaþotum. Þetta er miklu veraldarvanara fólk en þeir Íslendingar sem ég ólst upp með – þar á meðal ég.

Ég öfunda það eiginlega af þessu. Mig hefur alltaf langað að verða alvöru heimsborgari, en vegna uppruna míns held ég að ég nái því aldrei alveg.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Nína Richter skrifar: Strætófólkið og spandex-rassarnir

Nína Richter skrifar: Strætófólkið og spandex-rassarnir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir að ESB-aðild sé engin ógn við sjávarútveginn

Segir að ESB-aðild sé engin ógn við sjávarútveginn
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Trump leitar í smiðju höfundar hrunsins

Orðið á götunni: Trump leitar í smiðju höfundar hrunsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi