You Can´t Take It With You er titillinn á frægri amerískri gamanmynd frá hinum klassíska tíma í Hollywood. Leikstjórinn var sjálfur Frank Capra.
Þú tekur ekki peningana með þér í gröfina er íslensk þýðing á nafni myndarinnar
Einhvern veginn svona hljóta ríkir menn að fara að hugsa þegar þeir hafa eignast svo mikla peninga að þeir gætu ekki eytt þeim þótt þeir myndu lifa í margar mannsævir.
Hvað á þá að gera?
Byggja hús, minnisvarða, setja peninga í vísindi, mannúðar- eða menningarmál eða láta afkomendurna um að hirða auðinn?
Frægir eru auðmennirnir sem settu mark sitt á borgir Ameríku, ekki síst New York, á hinum miklu veltiárum kapítalismans fyrir svona einni öld. Carnagie, Rockefeller, Morgan.
Á Íslandi eru nú í fyrsta sinn til auðmenn sem slá eitthvað upp í þessa stærðargráðu. Einhvern tíma hljóta þeir að hugsa til vísna úr Hávamálum – þar sem segir að örlæti sé betra en auðsöfnun og að góður orðstír deyi ekki.
Björgólfur hinn eldri virðist allavega hugsa svona. Nú er hugmyndin að hann leggi framlag í sjóð til að styrkja gerð leikins sjónvarpsefnis. Á móti leggur Ríkisútvarpið fram jafnháa upphæð.
Einhverjir virðast telja þetta ógn við íslenska menningu. Fréttablaðið kvartaði reyndar undan því að þetta væri ekki nema brotabrot af auðæfum Björgólfs – ef venjulegur launamaður ætti í hlut væri þetta ekki nema smáuppæð.
En ég fæ ekki annað séð en þetta sé hið besta mál. Betra en að reyna að fara með peningana í gröfina.