Vandinn við Frakkana sem Bandaríkjamenn úthúðuðu sem mest hér um árið var að þeir höfðu rétt fyrir sér um Íraksstríðið. Ég hef það nánast frá fyrstu hendi að hatursherferð gegn Frökkum hafi verið skipulögð nálægt æðstu stöðum í Washington.
Það náði hámarki þegar farið var að kalla franskar kartöflur freedom fries.
Nú er komið í ljós að öll viðvörunarorð frönsku stjórnarinnar voru rétt. Hún þekkti arabaheiminn miklu betur en Bandaríkjastjórn. Hún vildi ekki hleypa honum upp með vanhugsaðri innrás. Fyrir þetta voru franskir ráðamenn, Chirac og Villepin, kallaðir tækifærissinnar og griðkaupamenn.
Í ljósi þessa er fyndið að horfa Sarkozy baða sig í sviðsljósinu með Bush. Maður hélt einhvern veginn að þetta væri náungi sem enginn vildi láta sjá sig með lengur. Gordon Brown var allavega þannig á svipinn þegar hann kom til Camp David í sumar – eins og hann vildi helst vera einhvers staðar víðs fjarri.
* Varðandi ljósmyndina hér að ofan þá velta menn því fyrir sér hvort Sarkozy standi á kassa. Hann er 165 sm á hæð, en Bush er 180 sm.