Fjölmiðlun á Íslandi er með ólíkindum fjörleg. Flesta morgna koma úr fimm dagblöð – Morgunblaðið, DV, Fréttablaðið, 24stundir, Viðskiptablaðið. Ljósvakafjölmiðlarnir halda úti þremur fréttastofum. Dagskrá Ríkisútvarpsins og Stöðvar 2 er áberandi öflug í vetur, mikið af góðu íslensku efni. Fyrir utan allar vefsíðurnar og tímaritin sem er haldið úti.
Stundum er allt í lagi að hafa smá perspektív á hlutina. Þetta er algjört met í 300 þúsund manna samfélagi.
Fjölmiðlarnir eru líka að standa sig nokkuð vel. Þeir hafa veitt stjórnvöldum og peningaöflunum nokkuð grimmt aðhald í helstu hitamálum haustsins: REI-málinu og nú í máli sem varðar samráð í matvöruverslunum. Menningarumfjöllun í fjölmiðlunum er líka ágæt; flestir sýna þeir nokkurn metnað á því sviði.
Nú er Blaðamannafélagið að halda ráðstefnu um fjölmiðla í tillefni af 110 ára afmæli félagsins. Mér sýnist uppleggið vera heldur neikvætt; í hópi fyrirlesara eru menn sem hafa alltaf haft horn í síðu blaðamennsku á Íslandi – sumpart út af einhvers konar snobbi.
Ég er ekki viss um nema þetta sé röng nálgun. Skyldi vera að blaðamennska á Íslandi hafi aldrei verið fjörugri – og að hugsanlega sé ástand fjölmiðlunar líka nokkuð gott á heimsvísu? Ég þekki núorðið best til í Grikklandi og Bretlandi – í báðum löndum er svakalega mikill kraftur í pressunni.