Síðunni hefur borist eftirfarandi bréf, sendandinn vill ekki láta nafn sitt koma fram, en tekið skal fram að bréfið er ekki nafnlaust:
„Sæll Egill,
Ég sé að það er verið að tala um matvælaverð á Eyjunni.
Þetta er nú svosem engar fréttir. Ég vann á skrifstofu hjá einu af þessum fyrirtækjum (í eigu Baugs) fyrir nokkrum árum. Þá gerðum við verðkannanir á hverjum degi í öðrum verslunum og ef einhver verslun var með óeðlilega lágt verð þá hafði ég einfaldlega samband við birgjann, og sagði honum að leiðrétta verðið á markaðnum. Birginn sendi þá um leið tölvupóst á allar keðjunar og sagði hverjum og einum í hvaða verð hann átti að fara. Þetta gátum við gert í skjóli Bónus, 10-11, Hagkaupa og Nýkaupa (þegar það var og hét).
Einnig get ég staðfest þetta með hækkanir á verðum fyrir helgar og ég tala nú ekki um fyrir Þorláksmessu eða aðra stóra daga. Þá hækkar verð svo um munar (það gerir enginn verðkönnun á Þorláksmessu). Og viðskiptvinir kvörtuðu ekki heldur, þeir taka ekkert eftir þessu í hamaganginum og af því vissum við.
Þetta er bara toppurinn á ísjakanum. Það er fullt af öðrum aðferðum sem við notuðum til að halda verðinu uppi. Þú myndir ekki trúa því hvað er mikið lagt á sig til að halda verðinu uppi, og eru nú margar kenningar í gangi en ég hef ekki heyrt neina eins róttæka eins og raunveruleikinn er.
Það þarf einhver að vekja máls á þessu.“