Hvar er ævisaga Davíðs Oddssonar? spyr Guðmundur Magnússon í pistli á DV-vefnum.
Er von að hann spyrji? Jú, við búum í smáríki, en í flestum löndum væri löngu komin út einhvers konar ævisaga svo magnaðs, umdeilds og áhrifamikils stjórnmálamanns.
Hver er skýringin?
Davíð ætti auðvitað að skrifa þessa bók sjálfur, nógu er hann ritfær til þess. Það væri illt fyrir sagnaritun meðal þjóðarinnar ef hann ritar ekki endurminningar sínar.
Annars eru tveir möguleikar í stöðunni:
Að einhver skrifi ævisögu Davíðs með blessun hans og samþykki. Sá yrði að hafa aðgang að skjala- og bréfasafni hans og leyfi til að tala við bestu vini og samstarfsmenn Davíðs. Svona bók bæri kannski að einhverju leyti merki ritskoðunar, en hún yrði samt grundvallarrit.
Svo er sá möguleiki að einhver skrifi ævisögu Davíðs án þess að njóta samþykkis hans. Sá höfundur gæti reyndar lent í vandræðum. Davíð var ekki mjög opinskár um stjórnarathafnir sínar – sagði einhvern tíma sjálfur að hann skrifaði lítið niður. Ævisagnaritarinn gæti líka komið að lokuðum dyrum hjá Kjartani, Hannesi, Jóni Steinari og Styrmi. Það mundi ekki hjálpa.
Ég get upplýst að bókaútgefandi einn spurði mig hvort ég væri til í að skrifa ævisögu Davíðs. Ég sagði nei – held það verði bæði erfitt og tímafrekt að gera honum almennileg skil.
Því auðvitað ætti hann að gera það sjálfur. Sú bók gæti orðið klassíker.