
Er eitthvert vit í að flytja inn poppara sem voru vinsælir einu sinni – mega sjálfsagt sjá fífil sinn fegurri – og gera varla annað en að spila gömlu lögin sín?
Það er ekkert afdráttarlaust svar við þessu, en ef marka má tónleika 10CC í gærkvöldi er óhætt að segja já.
10CC var einstök hljómsveit á sínum tíma. Hún spilaði popp sem var grípandi og sérlega sniðugt, lögin eru mjög haganlega samin og útsett, mikið um kaflaskipti og taktbreytingar, textarnir smellnir – enska orðið sem maður myndi nota um tónlistina er clever.
10CC var eitt aðalbandið á áttunda áratugnum, smellirnir voru fjölmargir – Rubber Bullets, The Wall Street Shuffle, Life Is A Minestrone, Dreadlock Holiday, I´m Not In Love, Things We Do For Love – jú, það var fullt af öðrum lögum.
Þeir voru aðalmennirnir í hljómsveitinni Graham Gouldman, Eric Stewart, Kevin Godley og Lol Creme. Þeir tveir síðarnefndu fóru burt og fengu meðal annars við gerð rokkvídeóa sem mörg urðu býsna fræg, meðal annars fyrir George Harrison, Frankie Goes to Hollywood, Duran Duran og Peter Gabriel.
Gouldman og Stewart héngu lengur saman og gekk býsna vel fram undir 1980, en þá var tími velgengninnar á enda.
Hljómsveitin sem hingað kom er á vegum Gouldmans, en með honum voru hjóðfæraleikarar sem sumir hafa spilað með 10CC síðan snemma á ferlinum. Hljómurinn í bandinu var því alveg ósvikinn – alls ekki eins og væri verið að reyna fanga eitthvað sem er löngu liðið.
Dægurtónlist er sérstök að því leyti að hún er mjög bundin við hinn upphaflega flytjanda, ólík klassíkinni sem er skrifuð á nótnablöð. Þess vegna skilur maður vel að gamlir popparar skuli þyrpast út á vegina með gömlu lögin sín – þau verða ekki flutt framar með þessum hætti eftir að þeir eru liðinir. Hjá sumum má jafnvel segja að séu síðustu forvöð. Í fyrra sá ég bæði Paul McCartney og Paul Simon á tónleikum. Það er ekki víst að gefist mörg tækifæri enn til að heyra þessa snillinga flytja lögin sín í eigin persónu.
Graham Gouldman er varla kominn á grafarbakkann. Hann er fæddur 1946. Á tónleikunum í gær fékk maður yfirlit yfir feril þessa flotta tónlistarmanns. Það voru reyndar flutt fleiri lög en úr fórum 10CC – ég vissi ekki að hann væri höfundur laga eins og No Milk Today sem Herman´s Hermits fluttu, Bus Stop og For Your Love sem urðu fræg með Hollies og For Your Love sem var stærsti smellur The Yardbirds.

Graham Gouldman: Maður vissi ekki hverju maður átti von á á tónleikunum í Háskólabíói í gærkvöldi, en þeim mun meiri var gleðin þegar þeir reyndust vera frábær upplifun.